Birgir Leifur Hafþórsson, úr GKG, náði ekki að fylgja eftir góðri byrjun á öðrum keppnishringnum á Áskorendamótaröðinni sem fram fer í Kasakstan. Birgir lék á 77 höggum í dag eða +5 og var hann samtals á +3 eftir að hafa leikið fyrsta hringinn á 70 höggum eða -2. Bandaríkjamaðurinn Shiwan Kim er efstur í mótinu á -11 samtals.
Þetta var sjöunda mótið hjá Birgi á Áskorendamótaröðinni á þessu tímabili og það var að miklu að keppa fyrir hann að komast enn hærra á stigalistanum fyrir lokamótin. Hann var í 88. sæti stigalistans fyrir þetta mót.
Þeir sem eru í sætum 1.-20. á stigalistanum í lok keppnistímabilsins fá keppnisrétt á sjálfri Evrópumótaröðinni, þeir sem eru í sætum 21.-45. fara beint inn í lokaúrtökumótið í haust fyrir Evrópumótaröðina, þeir sem eru 46.-90. sæti stigalistans fara beint inn á annað stig úrtökumótsins.
Sjötíu stigahæstu kylfingarnir í lok leiktíðar tryggja sér keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni á næsta ári og þeir sem eru í sætum 71.-120 eru nánast með fullan keppnisrétt. Birgir Leifur er í 88. sæti stigalistans þessa stundina og hann getur bætt stöðu sína á þeim lista með góðum árangri í Kasakstan.
Þetta er reyndar besti árangur Birgis á stigalista Áskorendamótaraðarinnar en hann hefur leikið á Áskorendamótaröðinni frá árinu 1999.