Bjarki Pétursson, atvinnukylfingur úr GKG, er í toppbaráttunni á Gamle Fredrikstad Open mótinu sem er hluti af Nordic Golf League atvinnumótaröðinni. Annar keppnisdagur af alls þremur stendur nú yfir og er Bjarki í öðru sæti þegar þetta er skrifað.
Gamle Fredrikstad Open er hluti af Nordic Golf League atvinnumótaröðinni. – sem er í þriðja efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu í karlaflokki.
Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit frá mótinu í Noregi.
Bjarki, sem fagnaði Íslandsmeistaratitli árið 2020, lék fyrsta hringinn á 67 höggum eða 5 höggum undir pari vallar.

Mótaröðin hefur reynst íslenskum kylfingum vel á undanförnum árum og opnað dyr inn á Áskorendamótaröðina (Challenge Tour). Fimm efstu á stigalistanum í lok keppnistímabilsins fá keppnisrétt á Challenge Tour og þrír sigrar á þessu tímabili tryggja einnig keppnisrétt á Challenge Tour.

Á stigalistanum er Bjarki í 96. sæti en hann hefur leikið á alls sex mótum á tímabilinu.