Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar frá Lumine á Spáni.
„Ég er stoltur að hafa klárað 2. stigið eins og ég gerði. Það var vindur upp á 10-12 metrar á sekúndu alla dagana. Hviðurnar fóru upp í 20 metra á sekúndu. Ráshópurinn minn var kallaður inn af vellinum alls 19 sinnum á þessum fjórum dögum,“ segir Bjarki Pétursson er eini áhugakylfingurinn sem er á meðal keppenda á lokaúrtökumótinu.
Borgnesingurinn, sem leikur nú fyrir Golfklúbb Kiðjabergs, lék á Club de Golf Bonmont á 2. stigi úrtökumótsins þar sem hann endaði í 8. sæti við erfiðar aðstæður. Bjarki byrjaði ekki vel eins og áður segir á 2. stiginu en hann lék tvo síðustu hringina á -9 samtals þegar mest á reyndi.
„Það tók mjög á andlega og líkamlega. Við vorum alltaf ræstir út á sama tíma kl. 8:30 eftir að leik var frestað. Við fórum aldrei að vellinum fyrr en síðdegis. Við vorum stundum ræstir út til þess að spila eina holu. Þetta var meira andlegt áreiti en líkamlegt. Ég gat alltaf fundið mér stað til þess að slappa af. Ég spilaði mig í erfiða stöðu fyrstu tvo keppnishringina. Ég var að pútta mjög illa. Ég mætti með annað hugarfar síðustu tvo dagana á 2. Stiginu. Það var annað hvort að standa sig eða fara snemma í jólasteikina. Mig langaði frekar að vera lengur og ná lengra.
Bjarki og Birgir Leifur Hafþórsson eru einu íslensku kylfingarnir í karlaflokki sem ná inn á lokaúrtökumót Evrópumótaraðarinnar í fyrstu tilraun eftir að úrtökumótunum var stigskipt.
Bjarki er ánægður með að hafa fengið tækifæri til þess að spila golf samhliða háskólanámi en hann dregur ekkert undan þegar hann segir að álagið sem því fylgir hafi aðeins haft áhrif á golfgleðina.
„Ég fékk smá leiða á golfinu á meðan ég var í háskólanum í Bandaríkjunum. Þetta voru fjögur mjög þétt og krefjandi ár. Það kom alveg til greina hjá mér að hætta bara í golfi. Ég var alvega þar. Það vantaði gleðina hjá mér. Það vantaði að ég væri ég sjálfur í stað þess að taka við fyrirmælum. Ég tók mér gott frí eftir háskólanámið og það gerði mér gott. Leikgleðin er til staðar á ný. Ég er ekki eins „stressaður“ fyrir mótin og áður. Ég átti það til að vera stressaður og neikvæður. Það er aðeins að breytast. Ég get ekki beðið eftir því að byrja núna í þessu móti.“
Bjarki segir að hann hafi látið sig dreyma um að komast í þessa stöðu sem hann er i dag sem „pjakkur“ í Borgarnesi.
„Sigurður Hafsteinsson og Arnar Már Ólafsson, sem hafa þjálfað mig, sögðu að þetta væri 5-7 ára langhlaup að komast hingað. Ég trúi því varla að þetta sé að gerast. Það eru ekki margir Íslendingar sem hafa komist í þá stöðu sem ég er í dag. Hvað þá frá bæ þar sem að 1.500 íbúar eru. Ég er með keppnisrétt á Nordic Tour á næsta tímabili og markmiðið er að vera með keppnisrétt á Evrópumótaröðinni eftir þetta úrtökumót,“ segir Bjarki Pétursson.