Bjarki Pétursson, atvinnukylfingur úr GKG, var í toppbaráttunni á Gamle Fredrikstad Open mótinu allt fram á lokaholuna á síðasta keppnisdegi. Mótið var hluti af Nordic Golf League atvinnumótaröðinni. Bjarki náði sínum besta árangri á mótaröðinni á þessu móti og bætti hann stöðu sína töluvert á stigalistanum.
Gamle Fredrikstad Open er hluti af Nordic Golf League atvinnumótaröðinni. – sem er í þriðja efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu í karlaflokki.
Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit frá mótinu í Noregi.
Bjarki, sem fagnaði Íslandsmeistaratitli árið 2020, lék fyrsta hringinn á 67 höggum eða 5 höggum undir pari vallar. Hann lék á 66 höggum á öðrum hringnum og var efstur fyrir lokahringinn. Hann var um tíma með þriggja högga forskot á lokahringnum en hann tapaði fjórum höggum á lokakaflanum og lék á 73 höggum eða einu höggi yfir pari,. Hann endaði því í öðru sæti á -10 og var einu höggi á eftir sigurvegaranum.

Mótaröðin hefur reynst íslenskum kylfingum vel á undanförnum árum og opnað dyr inn á Áskorendamótaröðina (Challenge Tour). Fimm efstu á stigalistanum í lok keppnistímabilsins fá keppnisrétt á Challenge Tour og þrír sigrar á þessu tímabili tryggja einnig keppnisrétt á Challenge Tour.
Á stigalistanum var Bjarki í 96. sæti fyrir þetta mót en hann hefur nú leikið á alls sjö mótum á tímabilinu. Hann fór upp um 68 sæti eftir mótið í Noregi.
