Axel Bóasson, GK, og Bjarki Pétursson, GKG, eru á meðal keppenda á BWT meistaramótinu sem fram fer á Kokkedal vellinum í Danmörku. Mótið hófst 2. ágúst og lokakeppnisdagurinn er 4. ágúst.
Mótið er hluti af Nordic Golf League atvinnumótaröðinni. – sem er í þriðja efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu í karlaflokki.
Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit frá mótinu í Danmörku.
Axel lék fyrsta hringinn á 68 höggum eða -4. Bjarki lék fyrsta hringinn á 73 höggum eða +1.
Mótaröðin hefur reynst íslenskum kylfingum vel á undanförnum árum og opnað dyr inn á Áskorendamótaröðina (Challenge Tour). Fimm efstu á stigalistanum í lok keppnistímabilsins fá keppnisrétt á Challenge Tour og þrír sigrar á þessu tímabili tryggja einnig keppnisrétt á Challenge Tour.
Á stigalistanum er Axel í 5. sæti en hann hefur leikið á alls 13 mótum á þessu tímabili, Bjarki hefur leikið á 12 mótum og er í 25. sæti á stigalistanum.