Bjarki Pétursson, GKG og Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GKG komust áfram af 2. stigi úrtökumótsins fyrir DP Evrópumótaröðina sem fram fór dagana 3.-6. nóvember.
Haraldur Franklín Magnús, GR var fjórum höggum frá því að komast áfram.
Þetta er í annað sinn sem Bjarki og Guðmundur Ágúst komast inn á lokaúrtökumótið – en þeir léku á því móti árið 2019. Aðeins fimm íslenskir kylfingar hafa náð inn á lokaúrtökumót Evrópumótaraðarinnar. Birgir Leifur Hafþórsson lék 13 sinnum á lokaúrtökumótinu og er eini íslenski karlkylfingurinn sem hefur tryggt sér keppnisrétt á Evrópumótaröðinni. Björgvin Sigurbergsson lék á lokaúrtökumótinu árið 2001 og árið 2019 var Andri Þór Björnsson á lokaúrtökumótinu líkt og Bjarki og Guðmundur Ágúst.
Alls var keppt á fjórum golfvöllum á Spáni á 2. stigi úrtökumótsins og léku Íslendingarnir allir á sama vellinum – Isla Canela Links í Huelva á Spáni.
Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit á Isla Canela Links.
Alls komust 23 keppendur sem léku á Isla Canela Links vellinum áfram á lokaúrtökumótið sem fram fer 11.-16. nóvember á Lakes Course, Infinitum við borgina Tarragona á Spáni.
Bjarki lék á 19 höggum undir pari samtals (65-68-68-68) og endaði hann í 10. sæti.
Guðmundur Ágúst lék á 17 höggum undir pari vallar (69-66-69-67) og endaði hann í 14. sæti.
Haraldur Franklín endaði í 41. sæti á 11 höggum undir pari samtals (66-72-72-67). Hann var fjórum höggum frá því að komast áfram.
Einnig var keppt á Empordia við Girona, Desert Springs við Almeria og Las Colinas við Alicante. Isla Canela völlurinn kom inn sem keppnisvöllur nýverið en til stóð að keppt yrði á Alenda vellinum við Alicante.
Gera má ráð fyrir að um 20 efstu af hverjum velli fyrir sig komist í gegnum 2. stig úrtökumótsins eða um 80 kylfingar alls.
Alls var keppt á níu keppnisstöðum á 1. stigi úrtökumótsins víðsvegar um Evrópu og nú þegar hafa 8 íslenskir kylfingar að reynt sig á úrtökumótum fyrir DP-Evrópumótaröðina. Guðmundur Ágúst og Haraldur Franklín bætast nú við og verða því alls 10 keppendur frá Íslandi á úrtökumótunum á þessu ári – sem er jöfnun á meti sem sett var árið 2019.
Bjarki Pétursson, sem varð Íslandsmeistari í golfi 2020, komst í gegnum 1. stig úrtökumótsins á móti sem fram fór á Haugschlag vellinum í Austurríki. Bjarki lék samtals á 7 höggum undir pari vallar, 281 höggi, (72-70-69-70). Bjarki er að taka þátt á úrtökumótinu fyrir DP Evrópumótaröðina í annað sinn á ferlinum – en hann fór alla leið inn á lokaúrtökumótið, eða 3. stigið, árið 2019. Í kjölfarið fékk hann takmarkaðan keppnisrétt á mótaröðinni á þessu tímabili.
Guðmundur Ágúst, sem varð Íslandsmeistari í golfi árið 2019, þurfti ekki að fara í gegnum 1. stig úrtökumótsins en hann hefur leikið á Áskorendamótaröðinni, Challenge Tour, á þessu tímabili. Þetta er í fimmta sinn sem Guðmundur Ágúst keppir á úrtökumótinu fyrir DP Evrópumótaröðina. Hann féll úr á 2. stiginu árið 2016, og næstu tvö ár á eftir féll hann úr leik á 1. stiginu. Árið 2019 komst Guðmundur Ágúst inn á lokaúrtökumótið. Hann fékk keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni með góðum árangri á Nordic Tour atvinnumótaröðinni þar sem hann sigraði á þremur mótum á einu tímabili – sem tryggði honum keppnisrétt á næst sterkustu atvinnumótaröð Evrópu.
Haraldur Franklín, sem varð Íslandsmeistari árið 2012, er í sömu stöðu og Guðmundur – og þarf því ekki að fara í gegnum 1. stig úrtökumótsins. Haraldur Franklín er að keppa í 5. sinn á úrtökumótinu fyrir DP Evrópumótaröðina. Hann hefur alltaf komist í gegnum 1. stig úrtökumótsins en á enn eftir að komast í gegnum 2. stig úrtökumótsins. Haraldur Franklín hefur verið með keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni, Challenge Tour, en hann öðlaðist keppnisrétt á þeirri mótaröð með því að vera í einu af 5 efstu sætunum á stigalista Nordic Tour atvinnumótaraðarinnar.