Auglýsing


– Nóg um að vera á 85 ára afmælisári Golfklúbbs Reykjavíkur 

„Ég prófaði golfið fyrst úti á Seltjarnarnesi þar sem ég bjó. Þar lék ég mikið um sumarið á fermingarárinu. Það entist ekki lengur en þetta eina sumar. Ég hafði meiri áhuga á fótbolta og handbolta. Ég lék með Gróttu í handbolta og KR í fótbolta. Handboltann stundaði ég lengur. Ég var samt ekkert góður, var bara með eins og sagt er,“ segir Björn Víglundsson formaður Golfklúbbs Reykjavíkur í spjalli við tímaritið Golf á Íslandi sem kom nýverið út.

Það er í mörg horn að líta hjá forsvarsmönnum GR og félagsmönnum á 85 ára afmælisári klúbbsins. Íslandsmótið í golfi fer fram á Grafarholtsvelli og kastljósinu verður beint að höfuðvígi golfsins í Reykjavík. Áhugi Björns á golfíþróttinni er mikill en golfáhuginn vaknaði fyrir alvöru á námsárum hans í Bandaríkjunum.  

„Þegar ég flutti til Bandaríkjanna árið 1991 vaknaði áhuginn á golfinu. Á þeim tíma var ég námsmaður við University of Tampa. Þar kynntist ég vel golfleikmanni í háskólaliðinu sem kenndi nokkrum okkar undirstöðuatriðin. Á þessu svæði eru margir golfvellir en fyrir námsmann var vallargjaldið of dýrt á flestum þeirra. Ég fann því ágæta lausn að spila völl fyrir kl. 8 á morgnana fyrir aðeins 3 dollara og 50 cent. Það var ódýrara en máltíð á McDonalds. Þessi völlur var mikið notaður á námsárunum. Smátt og smátt náði ég tökum á þessu. Ég er sannfærður um að sá grunnur sem ég fékk á þessu eina sumri á Nesvellinum hjálpaði mér mikið. Ég hvet því alltaf ungt fólk og þá sérstaklega börn að prófa golfið. Þótt þau endist bara í 1–2 sumur þá eru þau með grunn sem þau búa að alla ævi.“

Draumahringurinn á Grafarholtsvelli

„Ég byrjaði á því að ganga í Golfklúbbinn Odd eftir námið í Bandaríkjunum. Var þar félagsmaður í 3–4 ár. Spilafélagar mínir voru flestir í Golfklúbbi Reykjavíkur og ég gekk í raðir GR líklegast árið 1999. Á þessum tíma var ég með um 15 í forgjöf. Lægst hef ég farið niður í 5,2. Það gerðist í fyrra þegar ég lék minn besta hring á ævinni á Grafarholtsvelli. 

Ég vissi á hvaða skori ég var eftir 13. holuna, á -2. Þá hugsaði ég bara: Jæja, hvernig ætlar þú að hanga á þessu í gegnum hinar illræmdu lokaholur? Það gekk vel og ég fékk fjögur pör í röð. Ég kom mér í erfiða stöðu á 18. flöt en setti niður tveggja metra pútt fyrir pari og 69 höggum. Það var ljúft og gott að ná þessum áfanga. Forgjöfin hefur hins vegar hækkað jafnt og þétt frá þessum hring og ekki nógu mikið að mínu mati. Ég fagna því væntanlegum breytingum sem á að gera á forgjafarkerfinu á næstu misserum. Það mun jafna út þessar skörpu lækkanir sem eiga sér stað þegar leikmenn ná slíkum draumahringjum.“

Stór verkefni fram undan

Björn hefur lengi haft áhuga á félagsstörfum og hann gaf kost á sér í stjórn GR árið 2005. Hann segir að rekstur GR gangi vel og fram undan séu mörg stór verkefni.

„Ég fór inn í stjórn GR árið 2005 og var síðan varaformaður allt fram til ársins 2014. Þá gaf ég kost á mér í formannskjörið og ég hef gegnt því embætti frá þeim tíma. Afmælisbarninu, GR, gengur vel á 85 ára afmælisárinu. Fjárhagsstaðan er góð og klúbburinn hefur greitt niður skuldir sem urðu til vegna framkvæmda á Korpunni á undanförnum árum. Markmiðið er að byggja upp sterkari eiginfjárstöðu og vera betur í stakk búin fyrir næstu stóru verkefni sem eru á dagskrá hjá GR.“  

Íþróttahús á teikniborðinu

Efst á forgangslista stjórnar GR er að byggja íþróttahús við Bása sem nýtist til æfinga allt árið um kring. 

„Eftir mikla greiningarvinnu og skoðanakönnun á meðal félagsmanna var niðurstaðan að efst í forgangi er að koma upp heilsársaðstöðu til æfinga fyrir félagsmenn. Það er á dagskrá að byggja íþróttahús sem verður tengt við æfingaaðstöðuna Bása. Í þessu húsi geta kylfingar æft vipp, pútt og sveifluna. Í Básum verður síðan aðstaða til að slá bolta á útisvæðinu. Við vitum að Básar geta orðið kaldir yfir harðasta veturinn. Við horfum til þess að með nýrri inniaðstöðu verði hægt að nýta öll þessi mannvirki enn betur en áður. Við erum í góðu samstarfi við Reykjavíkurborg í þessu verkefni. Tímalínan er ekki alveg komin á tært en það ætti að skýrast betur í haust og einnig þegar fjármögnunarferlið verður komið á hreint.“

Innviðir Grafarholtsvallar þarfnast endurnýjunar

„Það er einnig á dagskrá að ráðast í miklar endurbætur á innviðum Grafarholtsvallar. Árið 2014 var samþykkt á aðalfundi að fylgja eftir áætlun frá einum virtasta golfvallahönnuði heims, Tom McKenzie. Grafarholtsvöllur var byggður á árunum 1958–1962 og framkvæmdin heppnaðist ótrúlega vel. Hér voru félagsmenn í sjálfboðavinnu með haka og skóflu að búa til golfvöll í harðgerðu landi. Okkur finnst að völlurinn eigi það skilið að við lyftum honum á enn hærri stall með þeim endurbótum sem eru á dagskrá. Grafarholtsvöllur stenst samanburð við alla velli þegar langt er liðið á sumarið. Á vorin og fyrri part sumars stenst völlurinn ekki samanburð og því viljum við breyta. Grundvallarvandamál í undirstöðum vallarins eru til staðar. Skipta þarf út undirlagi í flötum og brautum, vökvunarkerfið er úrelt og allir helstu innviðir vallarins þurfa á endurbótum að halda. 

Það má gera ráð fyrir að framkvæmdir á Grafarholtsvelli kosti nokkur hundruð milljónir kr. Við erum að horfa á tímalínu sem gæti byrjað eftir 2–3 ár. Næstu misseri verða vel nýtt til að finna lausnir til að raskið verði sem minnst fyrir félagsmenn. Ýmsar leiðir hafa verið skoðaðar. Samtalið við GR-félaga er mikið. Möguleikarnir eru margir, t.d. að áfangaskipta framkvæmdum. Fara í mótvægisaðgerð sem gæti falist í því að gera samkomulag við aðra klúbba. Það var gert t.d. við Leyni á Akranesi með góðum árangri á sínum tíma. Allar þessar hugmyndir eru uppi á borðinu og til skoðunar.

Fagaðilar hér á Íslandi sem vinna alla daga á golfvöllum landsins hafa náð frábærum árangri í því að flýta fyrir nýframkvæmdum. Keilir er að opna nýjar flatir eftir 12 mánaða ferli. Allt tekur þetta skemmri tíma en áður með betri þekkingu og aukinni fagmennsku. Við erum með gott plan og eftir 2-3 ár gætu framkvæmdir hafist ef allt gengur upp. Íþróttahúsið er í forgangi og þegar það verkefni verður komið í góðan farveg verður uppbygging Grafarholtsvallar sett í hæsta forgang.“

Markmiðið að skapa sem besta umgjörð á Íslandsmótinu 

Björn vonast að sjálfsögðu eftir að góðu veðri og mörgum áhorfendum í Grafarholtið á Íslandsmótinu. 

„Markmið GR fyrir Íslandsmótið 2019 er að skapa sem besta umgjörð fyrir keppendur og mótsgesti. Veðrið leikur þar stærsta hlutverkið og ég vona svo sannarlega að veðrið verði gott. Við slíkar aðstæður verður skorið gott og það viljum við sjá. Afrekskylfingar á Íslandi eru alltaf að verða betri og heildarskor undir pari er það sem við höfum verið að sjá á undanförnum árum. Þannig viljum við hafa það. Grafarholtsvöllur er í góðu standi og fagfólkið okkar mun skila frábærum keppnisvelli af sér þegar mótið hefst í ágúst.

Grafarholtsvöllur var opnaður árið 1963 en er samt sem áður á meðal elstu golfvalla landsins. Golfið er tiltölulega ung íþrótt hér á Íslandi. Grafarholtsvöllur er um margt einstakur. Þegar Tom McKenzie var að vinna að framtíðarskipulagi vallarins átti hann erfitt með að lýsa vellinum. Hann sagði einfaldlega að völlurinn væri íslenskur. McKenzie hefur hannað marga af þekktustu golfvöllum heims og unnið að endurbótum á flestum völlum sem notaðir eru á Opna mótinu. Stefna GR er að halda einkennum Grafarholtsins. Lágur trjágróður og lyng utan brauta á að vera einkenni vallarins áfram.“


Nóg pláss og gott útsýni fyrir áhorfendur 

„Við gerðum tilraunir sem snéru að áhorfendum á Íslandsmótinu árið 2009. Sú reynsla á eftir að nýtast vel. Það er búið að prófa ýmislegt, sumt virkar og annað ekki. Áhorfendur voru margir og stemningin var frábær. Vissulega hefðum við viljað fá fleiri áhorfendur og það er nóg pláss fyrir alla. Útsýnið er mjög gott frá mörgum stöðum á vellinum þar sem fólk getur staðsett sig og fylgst með á mörgum stöðum. Við viljum sjá fullt af fólki horfa á frábært golf í góðu veðri. Á slíkum dögum er dásamlegt að vera í Grafarholtinu.“

Heimsmet í virkum TrackMan Range notendum

„Á 85 ára afmæli GR eru fjölmargir viðburðir á dagskrá. Það er búið að gera margt og fleiri viðburðir eru fram undan. Íslandsmótið er stór hluti af þessu, afmælismót og að sjálfsögðu TrackMan Range útbúnaðurinn í Básum. Forsvarsmenn TrackMan eru undrandi og ánægðir með viðtökurnar hér á Íslandi. Nýtt heimsmet í niðurhali á smáforritinu sem hlaðið er niður í snjalltæki var sett á Íslandi. Nú þegar eru um 6.000 notendur. Það er mikill fjöldi að prófa golfið í Básum, leika sér að slá langt og fara í keppni við vinina svo eitthvað sé nefnt. Endurgjöfin sem kylfingarnir fá er einstök. Unga fólkið kann að meta þetta og við sjáum mikla aukningu í heimsóknum yngri aldurshópa eftir að TrackMan Range var sett upp í vor. 

Í haust ætla TrackMan Range að senda hingað fólk til að skoða hvað er í gangi á Íslandi. Þeim finnst ástandið óvenjulegt. Mín skýring er að golf á Íslandi er fyrir alla og höfðar til allra, óháð aldri eða kyni. Aldursdreifingin er einnig einstök. Það geta allir spilað golf. Það kostar svipað að stunda skíðaíþróttina og golf. Þeim þykir einnig félagatalið hjá GR vera áhugavert en það eru fáir klúbbar sem eru með 3.000 virka og spilandi félaga.“ 


Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ