Hér fyrir neðan eru nýjar reglugerðir sem stjórn GSÍ samþykkti þann 20. mars 2023. Stærsta breytingin er að fyrirkomulagi Íslandsmótsins í holukeppni verður umbylt. Aldursflokkum í Íslandsmóti og stigamótum í unglingaflokki er breytt en allar reglugerðir GSÍ má finna á golf.is/reglugerdir.
Hér helstu breytingar sem samþykktar voru.
1. Almenn atriði
1.1 Íslandsmót í holukeppni
Fyrirkomulagi mótsins er umbylt. Í stað riðlakeppni og útsláttarkeppni 32 keppenda af hvoru kyni munu nú a.m.k. 42 keppendur af hvoru kyni geta tekið þátt í 36 holu undankeppni í höggleik. Að henni lokinni fara 16 efstu keppendurnir í hreina útsláttarkeppni í holukeppni.
1.2 Íslandsmót og stigamót í unglingaflokkum
Aldursflokkum er breytt þannig að flokkar 17-19 ára og 19-21 árs eru sameinaðir í flokk 17-21 árs.
1.3 Íslandsmót golfklúbba
Í öllum reglugerðum um Íslandsmót golfklúbba hefur ákvæðum um birtingu liðsskipanar verið breytt. Reglur eru óbreyttar um skil liðsstjóra á liðsskipan, t.d. að skila þarf liðsskipan fyrir 1. umferð fyrir lok liðsstjórafundar daginn áður. Á hinn bóginn mun mótsstjórn ekki birta liðsskipanina fyrr en 2 klst. fyrir fyrsta rástíma viðkomandi umferðar. Það þýðir að fram að þeim tíma geta liðsstjórar breytt liðsskipaninni, t.d. ef leikmaður forfallast nóttina fyrir 1. umferð.
1.4 Staðarreglur og keppnisskilmálar
Auk breytinga á reglugerðum samþykkti stjórn GSÍ tillögur dómaranefndar GSÍ varðandi eftirfarandi mótaskjöl:
- Almennar staðarreglur um hegðun 2023
- Almennar staðarreglur um leikhraða 2023
- Almennir keppnisskilmálar og staðarreglur 2023
- Staðarregla um kylfubera á unglingamótaröðinni 2023
2. Einstakar breytingar
2.1 Reglugerð um Íslandsmót í golfi karla og kvenna
a. Skerpt á viðmiðunartíma forgjafar leikmanna. Engar efnislegar breytingar. Sjá 7. grein.
2.2 Reglugerð um Íslandsmót í golfi í unglingaflokkum 14 ára og yngri
a. Skerpt á viðmiðunartíma forgjafar leikmanna. Engar efnislegar breytingar. Sjá 7. grein.
2.3 Reglugerð um Íslandsmót í unglingaflokkum 15 ára og eldri
- Aldursflokkar 17-19 ára og 19-21 árs sameinaðir í flokk 17-21 árs. Hámarksforgjöf sett sú sama og var áður í 19-21 árs flokkunum. Sjá 7. grein.
- Skerpt á viðmiðunartíma forgjafar leikmanna. Engar efnislegar breytingar. Sjá 7. grein.
- Nokkrar smávægilegar orðalagsbreytingar.
2.4 Reglugerð um Íslandsmót í holukeppni karla og kvenna
- Þátttökuréttur breytist þannig að 42 keppendur eru í hvorum flokki (7. grein)
- Leikfyrirkomulagi breytt. Fyrst er leikinn 36 holu höggleikur. Að honum loknum er leikin holukeppniþar sem 16 efstu keppendur úr höggleiknum leika í útsláttarkeppni (9. grein).
- Nokkrar smávægilegar orðalagsbreytingar.
2.5 Reglugerð um Íslandsmót í holukeppni í unglingaflokkum
- Aldursflokkar 17-19 ára og 19-21 árs sameinaðir í flokk 17-21 árs. Sjá 7. grein.
- Skerpt á viðmiðunartíma forgjafar leikmanna. Engar efnislegar breytingar. Sjá 7. grein.
- Hámarksforgjöf sett í öllum flokkum. Áður var mótsstjórn heimilt á ákvarða hámarksforgjöf. Sjá 7.grein.
- Nokkrar smávægilegar orðalagsbreytingar.
2.6 Reglugerð um stigamót
a. Jafnmörg stig eru nú veitt vegna Íslandsmótsins í holukeppni eins og vegna Íslandsmótsins í golfi.
2.7 Reglugerð um stigamót unglinga
a. Jafnmörg stig eru nú veitt vegna Íslandsmótsins í holukeppni eins og vegna Íslandsmótsins í golfi.
2.8 Reglugerð um Íslandsmót golfklúbba
- Nýr viðauki II útskýrir leikröð þegar sex sveitir eða færri mæta til leiks, sbr. 11. grein.
- Viðbót við 13. grein um að mótsstjórn skuli ekki birta ráslista með nöfnum leikmanna fyrr en 2 klst.fyrir fyrsta rástíma umferðarinnar.
2.9 Reglugerð um Íslandsmót golfklúbba í unglingaflokkum 15 ára og eldri
- Fyrri reglugerð um Íslandsmót unglinga í unglingaflokkum hefur verið skipt upp í tvær reglugerðir, annars vegar vegna 14 ára og yngri og hins vegar vegna 15 ára og eldri.
- Aldursflokkar 17-19 ára og 19-21 árs hafa verið sameinaðir í flokk 17-21 árs.
- Nýr viðauki III útskýrir leikröð þegar sex sveitir eða færri mæta til leiks, sbr. 11. grein.
- Viðbót við 12. grein um að mótsstjórn skuli ekki birta ráslista með nöfnum leikmanna fyrr en 2 klst.fyrir fyrsta rástíma umferðarinnar.
2.10 Reglugerð um Íslandsmót golfklúbba í flokkum eldri kylfinga
- Orðalag um aldursviðmið samræmt öðrum reglugerðum. Sjá 8. grein.
- Nýr viðauki II útskýrir leikröð þegar sex sveitir eða færri mæta til leiks, sbr. 11. grein.
- Viðbót við 13. grein um að mótsstjórn skuli ekki birta ráslista með nöfnum leikmanna fyrr en 2 klst.fyrir fyrsta rástíma umferðarinnar.