/

Deildu:

Auglýsing

Í stefnu Golfsambands Íslands fyrir tímabilið 2013-2020 er lögð áhersla á að efla samskipti innan golfhreyfingarinnar og gera golfsambandið að samstarfsvettvangi allra samtaka innan hreyfingarinnar. Hjá golfsambandinu eiga aðilar hreyfingarinnar að geta leitað aðstoðar og leiðsagnar um hvaðeina sem tengist íþróttinni. Ein af þeim leiðum sem nefnd er í stefnunni er að gera heimasíðu sambandsins, golf.is, að miðstöð upplýsinga, frétta og þekkingar fyrir golfhreyfinguna auk þess sem vefurinn á að hafa breiða skírskotun til allra hagsmunaaðila.

Um árabil hefur golfsambandið gefið út tímaritið Golf á Íslandi, sem hefur það hlutverk að veita kylfingum upplýsingar, fróðleik og fréttir. Árlega eru gefin út fimm tölublöð og hefur svo verið allt frá árinu 2004 en tímaritið hóf útgáfu sína árið 1990. Golf á Íslandi er eitt stærsta tímarit landsins og er því dreift inn á heimili allra kylfinga innan golfsambandsins. Allt frá árinu 2002 hefur Páll Ketilsson hefur verið ritstjóri blaðsins en hann hefur starfað við tímaritið allt frá árinu 1999. Fyrirtæki hans, Víkurfréttir, hefur séð um vinnslu blaðsins, s.s. umbrot, myndvinnslu, greinaskrif, þýðingar o.fl. sem snýr að útgáfunni.

Til að efla útgáfusvið golfsambandsins enn frekar og nálgast það markmið að gera golf.is að miðstöð upplýsinga fyrir golfhreyfinguna hefur stjórn GSÍ ákveðið að færa útgáfu Golfs á Íslandi inn á skrifstofu sambandsins og þannig freista þess að tengja útgáfuna betur við aðra útbreiðslustarfsemi sambandsins. Við þessar breytingar mun Páll Ketilsson láta af störfum sem ritstjóri Golfs á Íslandi og verður ritstjórn blaðsins færð undir útgáfusvið GSÍ. Sérstakur útgáfustjóri golfsambandsins verður ráðinn á næstu vikum og mun starf hans felast í því að ritstýra Golfi á Íslandi, hafa yfirumsjón með golf.is og vinna að öðrum útbreiðslumálum á vegum sambandsins.

Golfsambandið vill nota tækifærið og þakka Páli Ketilssyni fyrir hans framlag til golfíþróttarinnar um leið og það fagnar því að Páll hefur samþykkt að vera útgáfusviði til ráðgjafar um útgáfu- og vefmál sambandsins á næstu misserum.

f.h. stjórnar Golfsambands Íslands

Haukur Örn Birgisson, forseti

 

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ