Stjórn Golfsambands Íslands hefur ráðið Brynjar Eldon Geirsson í starf framkvæmdastjóra sambandsins. Starfið var auglýst laust fyrir áramót og tæplega 50 umsækjendur sóttust eftir starfinu. Ráðninga- og ráðgjafafyrirtækið Hagvangur var golfsambandinu innan handar í ráðningarferlinu.
Brynjar er 38 ára gamall og hefur starfað innan golfhreyfingarinnar frá árinu 2000, bæði á Íslandi og í Þýskalandi. Brynjar tók við starfi íþróttastjóra hjá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar eftir að hafa lokið PGA golfkennaranámi í Þýskalandi.
Árið 2007 var hann ráðinn íþróttastjóri hjá Golfklúbbi Reykjavíkur og hann var um tíma aðstoðarlandsliðsþjálfari hjá GSÍ. Undanfarin tvö ár hefur hann starfað sem íþróttastjóri Märkischer Golfclub Potsdam í Berlín.
„Ég hlakka mikið til að takast á við þau fjölmörgu krefjandi verkefni sem fylgja starfinu og er þakklátur fyrir að fá þetta tækifæri. Ég mun vinna að markmiðum Golfsambands Íslands með hag og framfarir hreyfingarinnar að leiðarljósi í nánu samstarfi við golfklúbba landsins,” sagði Brynjar Eldon Geirsson en hann mun hefja störf í byrjun mars.
„Það er virkilega ánægjulegt að hafa fengið Brynjar til liðs við golfsambandið. Hann býr yfir mikilli þekkingu á golfíþróttinni og verður öflugur liðsmaður. Golfíþróttin hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum og það verður spennandi að vinna með Brynjari að áframhaldandi sókn íþróttarinnar,“ sagði Haukur Örn Birgisson, forseti GSÍ um ráðninguna.