Einherjaklúbburinn á Íslandi og Hótel Keflavík hafa gert með sér samkomulag sem ætti að hvetja alla kylfinga landsins til þess að miða enn betur á holuna á par 3 holunum á árinu 2016.
Í tilefni af 30 ára afmæli Hótel Keflavík sem og opnunar fyrsta 5 stjörnu hótels landsins, Diamond Suites, þann 17. maí næstkomandi þá fá allir þeir sem fara „holu í höggi„ á árinu 2016 gjafabréf upp á glæsilega gistingu fyrir sig og félaga sinn á Hótel Keflavík ásamt ljúffengum morgunverði.
Nauðsynlegt er fá afrekið samþykkt og skráð af Einherjaklúbbnum til þess að hljóta gjafabréfið.
Að auki verður sérstakur 150.000 króna verðlaunapakki í boði fyrir þann sem fyrstur fer tvisvar sinnum „holu í höggi“ á árinu. Sá sem það gerir fær gjafabréf upp á gistingu í einni af 5 stjörnu svítum Diamond Suites með einka heitum potti, einkabílstjóra á ferð um Reykjanesið, þriggja rétta kvöldverði fyrir tvo á KEF restaurant og að sjálfsögðu kampavín til að halda upp á afrekið.
Hótel Keflavík er fyrsta flokks hótel í miðbæ Reykjanesbæjar og var árið 2016 valið annað besta hótelið á Íslandi af TripAdvisor. Aðstaða fyrir ráðstefnu og árshátíðir er öll hin besta og er afþreying á svæðinu í miklu úrvali. Í Reykjanesbæ eru margir verðugir staðir til að heimsækja eða skoða sem og á Reykjanesi þar sem nokkrar af perlum íslenskra náttúru eru auk Hólmsvallar í Leiru, Bláa Lónið, Víkingaheimar, Orkuverið Jörð og svo mætti lengi telja.