Golfsamband Íslands

„Ég er í draumastarfinu“

– Jussi Pitkänen afreksstjóri Golfsambands Íslands

„Ég er oft spurður að því hvernig mér líði í þessu starfi. Svarið er einfalt. Ég er í draumastarfinu og ég elska að fá tækifæri að vinna með öllu þessu góða fólki sem er í golfíþróttinni á Íslandi. Ísland er einstakt að mörgu leyti hvað íþróttir varðar. Hér er gott kerfi sem hvetur ungt fólk til þess að stunda íþróttir og það eru ekki margar þjóðir sem geta státað sig af slíku,“ segir Jussi Pitkänen afreksstjóri Golfsambands Íslands við Golf á Íslandi. Viðtalið birtist í nýjasta tbl. Golf á Íslandi sem kom út í byrjun maí.

Jussi hóf störf í upphafi ársins 2017. Hann segir að margt hafi áunnist á sl. mánuðum og markmiðin séu skýr fyrir framtíðina.

„Á fyrstu mánuðunum fór mikill tími í að kynnast fólki, aðstæðum og sjá heildarmyndina. Ég tók við góðu búi og hef verið að byggja ofan á þá þekkingu og reynslu sem var til staðar á Íslandi. Ég hef reynt að vera í góðu sambandi við leikmenn, foreldra og að sjálfsögðu þjálfarana. Spurt um hvað hefur virkað vel og hvað við gætum gert enn betur. Eitt af því sem kom úr þeim samtölum er að leggja meira áherslu á einstaklingskeppni á alþjóðlegum mótum. Það höfum við gert. Markmiðið er að koma íslenskum kylfingum hærra á heimslista áhugakylfinga, leika keppnisgolf allt árið um kring á sterkum alþjóðlegum mótum.“

Jussi bætir því við að í vetur hafi stór hópur afrekskylfinga lagt leið sína á sterk alþjóðleg mót.

„Á þessu ári hafa íslenskir kylfingar keppt m.a. á vetrarmótaröð á Costa Ballena á Spáni, Opna spænska áhugamannamótinu og í Suður-Ameríku. Þessi verkefni kosta peninga en við erum á þeirri skoðun að þetta sé mikilvægur þáttur í að þroska leikmenn. Aðstæður á Íslandi eru hamlandi þáttur yfir veturinn og við þurfum að mæta því með að leika erlendis eins oft og kostur er. Ólympíuleikarnir í Tókýó er eitt af markmiðunum sem okkar kylfingar eru með á planinu sínu. Ungmenna ÓL fer fram í október í Buenos Aires í Argentínu og við fáum að senda tvo keppendur þangað, pilt og stúlku.“

Jussi Pitkänen aðstoðar hér Birgi Leif Hafþórsson á æfingasvæðinu Myndsethgolfis



Markmið afreksstjóra GSÍ eru skýr og hann hvetur afrekskylfingana til að segja frá markmiðum sínum og stefna hátt.

„Til lengri tíma litið þá eru markmiðin skýr. Við ætlum að eiga leikmenn á topp 50 á heimslista áhugakylfinga. Við ætlum líka að stefna á verðlaunapall á stóru áhugamannamótunum, vera samkeppnishæf. Þetta þokast í rétta átt. Guðrún Brá Björgvinsdóttir náði frábærum árangri á EM einstaklinga og endaði í fjórða sæti.

Gísli Sveinbergsson setti vallarmet á Opna breska áhugamannamótinu og lék á -8 eða 64 höggum, Bjarki Pétursson sigraði á móti í Berlín og lék á -20 samtals. Þetta eru afrek sem við viljum sjá oftar, og þetta eru allt skref í þá átt sem við stefnum að.

Sagan hefur sýnt fram á það að þeir sem ná langt sem áhugamenn eru líklegri til þess að ná langt sem atvinnukylfingar. Við erum því óhrædd við að setja okkur háleit markmið.“

Stór hópur sérfræðinga vinnur náið með Jussi og er hann ánægður með samstarfið.

„Við höfum fengið frábæra sérfræðinga með okkur í afreksstarfið. Björgvin Sigurbergsson er aðstoðarþjálfari ásamt Arnóri Inga Finnbjörnssyni sem sér einnig um tölfræðigreiningu. Ráðgjafar okkar úr Háskólanum í Reykjavík eru Hafrún Kristjánsdóttir, Ingi Þór Einarsson, Magnús Þór Einarsson og Magnús K. Gíslason. Mark Bull er lífaflfræðingurinn sem við nýtum okkur, Brynjólfur Mogensen er í læknateyminu og Stuart Leong sér um tölfræðivinnslu leikmanna í gegnum Shotstohole.com.

Jussi Pitkänen Myndsethgolfis

Eitt af aðalmarkmiðum okkar er að leikmenn séu heilbrigðir. Með þeim hætti geta leikmenn æft meira og orðið betri. Við höfum líka talað opinskátt um hvert við viljum stefna. Við ætlum að stefna hátt í alþjóðlegum samanburði í stað þess að miða okkur við það sem er hér á Íslandi. Heildarmyndin þarf líka að vera skýr. Í samtölum mínum við afrekskylfingana setjum við upp áætlun sem er raunsæ. Það þarf að ná að krossa í nokkra kassa á afrekslistanum áður en ákvörðun er tekin um að gerast t.d. atvinnukylfingur. Sagan sýnir að það fer oft margt úrskeiðis þegar áhugamannaferlinum lýkur. Þeir sem fara í atvinnumennsku þurfa að vera með breiðar axlir og vel skipulagðir. Eitt af verkefnunum sem ég set fyrir okkar áhugakylfinga er að þeir skrá sig sjálfir í mótin, skipuleggi ferðalögin sjálfir og taki ábyrgð á því sem þeir eiga að gera. Málið er atvinnukylfingar þurfa að gera þetta allt saman sjálfir þegar þeir hefja sinn feril. Þeir fá kannski aðstoðarmenn síðar á ferlinum ef þeir hafa efni á því. Ég hef séð marga kylfinga sem koma úr „vernduðu“ umhverfi lenda í vandræðum sem atvinnukylfingar. Þeir kunna t.d. ekki að bóka flug, skrá sig til leiks, og allt þetta sem fylgir atvinnumennskunni.“

Afreksstjórinn segir að það séu spennandi tímar fram undan.

„Við erum að safna saman gögnum úr tölfræði leikmanna í gegnum Shotstohole.com. Arnór Ingi ætlar að taka þau saman í skýrslu. Það sem ég hef séð hefur komið mér á óvart. Íslendingar hafa talið að þeir væru ekki eins góðir og aðrir í stutta spilinu og púttum. Fyrstu gögnin sem ég hef séð benda til þess að það séu aðrir þættir leiksins sem þarf að æfa enn meira. Þar koma innáhöggin af löngu færi og millifæri fyrst upp í hugann. Þar er verk að vinna ef marka má fyrstu niðurstöður. Við eigum eftir að fá gögn frá kylfingum á borð við Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur og Axel Bóassyni.“

„Hugarfar Íslendinga er mjög gott, hér eru íþróttir í hávegum hafðar. Það eru ekki aðeins útvaldir sem hafa kost á því að æfa. Mér finnst t.d. mjög áhugavert að bæjarfélög styðji fjárhagslega við bakið á fjölskyldum með tómstundastyrk. Það eru ekki mörg lönd með slíka hefð,“ segir Jussi Pitkänen.

Exit mobile version