– Óvæntur hringur með Ólafíu Þórunni bætti golfið hjá Kristínu Önnu Hassing – Viðtal úr 1. tbl. Golf á Íslandi 2016.
Kristín Anna Hassing byrjaði í golfi sumarið 2007 og frá þeim tíma hefur hún stundað íþróttina af krafti. Hún er í Golfklúbbi Reykjavíkur og hefur náð forgjöfinni niður í 16,7. Ragnhildur Sigurðardóttir, margfaldur Íslandsmeistari í golfi, kveikti neistann hjá Kristínu sem starfar sem íþrótta- og smíðakennari.
„Ragnhildur kom til starfa í skólanum hjá okkur og hún ákvað að sjálfsögðu að kynna golfið fyrir unglingunum. Þarna snerti ég golfkylfur í fyrsta skipti og það var ekki aftur snúið. Ég fór og keypti mér þrjár ódýrar kylfur, PW, 9-járn og pútter. Og sumarkort hjá á Thorsvöllinn hjá GR. Þá hafði ég allt sem ég þurfti. Ég fjölgaði kylfunum smátt og smátt í pokanum og gekk í GKG fljótlega,“ segir Kristín en hún var frekar feimin við að leika golf með öðrum í fyrstu og fannst eins og hún væri fyrir þeim sem vanari væru.
„Á öðru sumrinu mínu var golfið tekið með trompi og ég skráði 70 hringi. Flestir voru 9 holu hringir en 18 holu hringjunum fjölgaði jafnt og þétt. Uppskeran var eftir því og ég lækkaði forgjöfina úr 40 í 25.“
[pull_quote_right]Kristín tók þátt í Meistaramóti GKG mjög fljótlega eftir að hún gekk í klúbbinn og hvetur hún alla sem eru að byrja í golfi að taka þátt í slíku móti.[/pull_quote_right]
„Ég kunni lítið í golfreglunum og þegar boltinn stoppaði á holubarminum í eitt skiptið þá spurði ég hvort þetta væri ekki gefið og tók upp boltann. Meðspilarnir horfðu á mig stórum augum og kalla varð til dómara þar sem engin af okkur vissi hvað nú ætti að gera. Mig minnir að ég hafi fengið tvö högg í víti og varð að leggja boltann niður þar sem hann lá og pútta honum niður. Eftir það hef ég lagt mig fram við að læra reglurnar.“
Kristín er innt eftir skemmtilegu atviki á golfferlinum.
„Árið 2010 spilaði ég Garðavöll á Akranesi í fyrsta skipti. Ég var ein á ferð og fór á æfingasvæðið og var ekki að hitta boltann vel. Ég hugsaði að það væri gott að ég væri ein. Þegar ég kom á teig þá voru þar þrír kylfingar. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir með foreldrum sínum en hún var að taka æfingahring fyrir eitthvert mót.
Þetta var mér til happs því auk þess að fá þennan skemmtilega félagsskap þá fékk ég góð ráð um hvernig best væri að leika völlinn. Síðan fylgdist ég grannt með Ólafíu og reyndi að læra af henni og endaði með að spila minn besta hring á ferlinum. [pull_quote_right]Eftir góðan tíma í GKG ákvað ég að færa mig yfir í GR fyrir tveimur árum. Þar skipti mestu máli að ég bý í Árbænum og því mun styttra að fara og þar sem ég spila nokkuð oft þá er fjölbreytnin meiri í GR með Korpuna og Grafarholtið.“[/pull_quote_right]
Kristín segir að golfíþróttin heilli hana á alla vegu.
„Ég er keppnismanneskja og finnst gaman að setja mér markmið og keppa bæði við sjálfa mig og aðra. Útiveran og náttúruupplifunin er yndisleg og félagsskapurinn skemmtilegur. Það er oft öðruvísi að spila við karlana því þeir eru alltaf til í keppni og þá spila ég oftast betur. Annars finnst mér líka mjög gaman að æfa mig enda skilar það sér fljótt á vellinum og upphitun fyrir hring er mér nauðsynleg til að komast í gírinn. Ég spila alltaf þegar veður leyfir en ég er ekkert að berjast um á vetrarvöllum. Vonandi tekst mér að bæta mig í sumar og markmiðið er að komast undir 13 í forgjöf og komast í öldungasveit GR,“ sagði Kristín Anna Hassing.