/

Deildu:

Guðrún S. Eyjólfsdóttir. Mynd/seth@golf.is
Auglýsing

– Viðtal úr Golf á Íslandi, 1. tbl. 2017: Guðrún S. Eyjólfsdóttir skellti sér á golfdómaranámskeið og skemmti sér vel.

„Ég hef brennandi áhuga á golfi og þessi íþrótt er það skemmtilegasta sem ég geri. Þótt árangurinn sé ekki endilega í samræmi við erfiðið. Ég valdi að fara á héraðsdómaranámskeiðið þar sem mig langaði að auka þekkingu mína á golfreglunum sem eru margar og oft snúnar. Mér fannst þetta líka góður tími í febrúar, þekking á reglunum er hluti af golfinu og þekking á þeim dýpkar upplifunina á golfíþróttinni,“ segir Guðrún S. Eyjólfsdóttir sem var í hópi 22 nýrra héraðsdómara sem bættust í hóp golfdómara fyrr á þessu ári.

Héraðsdómaranámskeið dómaranefndar GSÍ tókst mjög vel og var þátttakan mjög góð. Guðrún segir að námskeiðið hafi komið sér skemmtilega á óvart.

„Fyrirlestrarnir voru vel skipulagðir og vel settir fram. Fyrirlesararnir eru í fremstu röð og komu þessu vel frá sér. Þeir sýndu mikið af dæmum frá uppákomum úr atvinnugolfinu og það kryddaði mjög fyrirlestrana. Eiginmaðurinn minn var með mér á þessu námskeiði. Við ræddum því mikið um efni námskeiðsins og lærðum saman heima. Það var nauðsynlegt að læra heima á milli fyrirlestra. Í fyrstu fannst mér þetta nokkuð erfitt. En á þriðja fyrirlestrinum fóru púslin að falla saman og þetta varð skemmtilegra og skemmtilegra,“ segir Guðrún en eiginmaður hennar er Snjólfur Ólafsson.

Alls luku 22 prófi sem héraðsdómarar að þessu sinni og þar af voru fjórar konur. Aðspurð segir Guðrún að það séu án efa ýmsar ástæður fyrir því að konur séu í minnihluta á slíkum námskeiðum.

„Konur eru síður tilbúnar að keppa en karlar. Fólk tengir eflaust golfreglurnar við keppni og tekur þær síður alvarlega í afþreyingargolfi. Sumum finnst þetta golfregluþvarg leiðinlegt og vilja bara spila og hafa gaman.“

Guðrún segir að hún hafi farið á héraðsdómaranámskeiðið fyrst og fremst fyrir sjálfa sig. „Ég vildi kunna meira og betur, geta tekið slaginn á vellinum ef og þegar á reynir. Maður hittir oft kylfinga sem telja sig vera með allt á hreinu en eru það alls ekki. Þá er gott að vera búinn að kynna sér reglurnar og þekkja golfreglubókina vel. Ég veit svo sem ekki hvort ég taki að mér dómarastörf þegar fram líða stundir. Maður er ekki fullnuma þó að prófið sé að baki. Maður þarf ávallt að bæta við sig þekkingu á þessu sviði. Næsta skref fyrir mig væri að fá að fylgjast með reyndum dómara við störf.“

Guðrún S Eyjólfsdóttir Myndsethgolfis

Guðrún er lyfjafræðingur og stýrði lengi gæðamálum hjá Actavis. Hún á fimm barnabörn, hvert öðru dásamlegra, eins og hún segir sjálf frá. Nýliðanámskeið árið 1998 hjá GKG kveikti golfneistann hjá Guðrúnu.

„Eftir það var ekki aftur snúið. Í gegnum tíðina hefur oft verið lítill tími til þess að stunda golfið. En ég hef nýtt tímann betur undanfarin 2-3 ár þar sem vinnan er ekki að trufla mig lengur. Golf er eina íþróttin sem ég hef stundað hjá íþróttafélagi, en ég hef verið í líkamsrækt og slíku á eigin vegum. Ég hef margoft spurt mig af hverju ég hafi ekki byrjað fyrr í golfi. Ég held að flestir kylfingar á miðjum aldri eins og ég spyrji sig að því,“ segir Guðrún en hún er félagi í tveimur klúbbum, GKG og GKB. „Við erum með sumarhús í Kiðjabergi og spilum mikið þar á þeim stórkostlega velli. Við hjónin erum einnig í GKG og spilum líka þar. Eina markmiðið er að spila mikið og hafa gaman af því,“ segir Guðrún S. Eyjólfsdóttir, héraðsdómari í golfi og kylfingur.

Guðrún S Eyjólfsdóttir Myndsethgolfis
Guðrún S Eyjólfsdóttir Myndsethgolfis

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ