Andri Þór Björnsson úr GR sigraði nokkuð örugglega á Egils-Gullmótinu á Eimskipsmótaröðinni sem lauk í dag á Strandarvelli á Hellu. Andri lék frábært golf þegar mest á reyndi og sigraði með sex högga mun. Andri lék hringina þrjá á 5 höggum undir pari vallar samtals og lokahringinn lék hann á -2. Ragnar Már Garðarsson úr GKG og Arnór Snær Guðmundsson úr Hamri á Dalvík enduð jafnir í 2.-3. sæti á +1 samtals.
Andri gerði fá mistök á hringnum í dag og fékk tvo skolla en hann fékk alls fimm fugla og þar af þrjá á síðustu fimm holunum.
Þetta er fjórði sigur Andra á Eimskipsmótaröðinni en hann sigraði á tveimur fyrstu mótunum í fyrra og hafði fyrir þá sigra landað einum sigri á mótaröð þeirra bestu.
„Ég ætla að byrja á því að þakka Golfklúbbi Reykjavíkur fyrir stuðninginn, þjálfurunum mínum Inga Rúnari Gíslasyni og Arnóri Finnbjörnssyni, þeir eiga mikið í þessu ásamt aðstoðarmanni mínum. Ég vil einnig þakka Golfklúbbnum á Hellu fyrir að standa vel að þessu móti ásamt Golfsambandi Íslands,“ sagði Andri Þór við golf.is á Strandarvelli á Hellu í dag.