
„Já það er ekki annað hægt en að segja að þessi sigur hafi komið mér á óvart. Það þarf eflaust að leita vel í gögnum á Árbæjarsafninu eftir síðasta sigri mínum á mótaröð þeirra bestu,“ sagði Þórdís Geirsdóttir úr Keili eftir sigur hennar á Egils-Gullmótinu á Eimskipsmótaröðinni á Strandarvelli á Hellu í dag.
Aðstæður voru prýðilegar á Hellu í dag, sól af og til, hiti um 10 gráður en töluverður vindur var um miðjan dag.
Þórdís og Karen Guðnadóttir úr GS háðu mikla baráttu um sigurinn í ágætu veðri á Strandarvelli. Karen náði um tíma tveggja högga forskoti á Þórdísi en það snérist við á 11. og 12. holu. Þórdís jafnaði við Karen og þær voru jafnar eftir 54 holur. Úrslitin réðust í bráðabana þar sem 10. hola Strandarvallar var leikinn. Þar gerði Þórdís engin mistök og fékk fugl og það dugði til sigur.
Þórdís lék á 18 höggum yfir pari vallar (76-74-78) en skor keppenda má sjá á myndinni hér fyrir neðan. Karen var efst fyrir lokahringinn og hafði þá tveggja högga forskot á Ingunni Einarsdóttur, GKG, Þórdísi Geirsdóttur, GK, og Berglindi Björnsdóttur, GR. Berglind endaði í þriðja sæti á 22 höggum yfir pari.













