– Kylfingar á öllum getustigum geta nýtt sér fullkomin greiningartæki
Greiningartæki á borð við Trackman hafa rutt sér rúms með skjótum hætti hér á Íslandi. Kylfingar á öllum getustigum geta nýtt sér þessa nýju tækni til þess að auka færni sína í golfíþróttinni. Úlfar Jónsson, íþróttastjóri Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar, segir í samtali við Golf á Íslandi að greiningartækin hafi fært æfingar á undirbúningstímabili upp í nýjar hæðir.
Hvað er Trackman?
„Trackman er golfgreiningartæki sem notar radartækni til að reikna út upplýsingar um boltaflug og „hegðun“ golfkylfunnar í sveiflunni. Trackman þykir fremst í flokki greiningartækja á markaðnum og nota margir af fremstu atvinnumönnum heims Trackman.“
Hvernig virkar Trackman?
„Trackman-tækið reiknar út upplýsingar um boltaflugið, hvernig kylfan sveiflast og stöðu kylfuhaussins þegar boltinn er hittur. Upplýsingarnar er hægt að lesa af snjallsíma, spjaldtölvu eða venjulegri tölvu.“
Tölurnar sem koma út úr Trackman – hvaða tölur skipta mestu máli?
„Trackman gefur upplýsingar um 28 mismunandi breytur hvað varðar boltaflug og sveifluna. Það er einstaklingsbundið hvaða upplýsingar skipta mestu máli, en þó má segja að boltaflugið sé það sem allir þurfa að hafa í huga, það er högglengd, stefna og sveigja og flugtakshornið. Þeir þættir sem hafa mest áhrif á þetta er staða kylfuhaussins þegar boltinn er hittur, ferill kylfunnar og sveifluhraðinn. Þannig að fyrir flesta nægir að skoða fjórar til sex breytur.“
Hefur hinn almenni kylfingur gagn af því að fara í slíkt tæki?
„Já, svo sannarlega. Það er þó mikilvægt, ef nota skal Trackman sem æfingatæki, að fá leiðsögn PGA-golfkennara sem hefur þekkingu á tækinu. PGA-kennari greinir hvað leggja ætti áherslu á í æfingum til að bæta tækni, þ.e. fá betra boltaflug, hitta boltann betur o.þ.h. Þegar nemandinn er kominn með þessar upplýsingar þá getur hann notað Trackman til að sjá mjög greinilega hvort nýjar hreyfingar í sveiflunni séu að skila „réttari“ tölum, t.d. um sveifluferil, högghorn og boltaflug. Tækið gefur upplýsingar eftir hvert högg sem slegið er, og hægt er að treysta að þær upplýsingar séu réttar. Greiningartæki hafa rutt sér rúms með skjótum hætti hér á Íslandi og er hægt að komast í greiningartæki og golfherma í býsna mörgum golfklúbbum. GKG er t.a.m. með níu Trackman-tæki í sinni inniæfingaaðstöðu.“
Hafa æfingar afrekskylfinga breyst með tilkomu Trackman?
„Notkun greiningartækja hefur fært æfingar á undirbúningstímabili upp í nýjar hæðir. Við æfum mest innandyra yfir veturinn og því er ómetanlegt að fá nákvæmar upplýsingar um boltaflugið og sveifluna. Það er því hægt að vinna mun markvissara í tækni en áður. Aðalatriðið er líka að æfingar verða mun áhugaverðari og skemmtilegri heldur en að slá í net þar sem þú veist ekki með vissu hvort höggið var vel heppnað eða ekki.“
Er Trackman leiktæki eða æfingatæki?
„Hvort tveggja. Trackman er í grunninn æfingatæki, og þá er notast við svokallaðan TPS (TrackMan Performance System) hugbúnað, þar sem hægt er að æfa tæknina og skoða allt að 28 mismunandi breytur eins og áður sagði. En Trackman býður líka upp á leikforrit þar sem hægt er að leika golf með félögunum á mörgum af þekktustu völlum heims. Forritið gefur einnig upplýsingar um allt að átta breytur eftir hvert högg, t.d. feril kylfunnar og sveifluhraða og nýtist því ágætlega sem æfingatæki.“
Er hægt að fara yfir línuna í notkun og pælingum í Trackman?
„Jú, vissulega er það hægt. Kylfingar geta orðið of uppteknir við að ná „réttu“ tölunum í tækinu, þegar markmið leiksins er alltaf að koma boltanum frá A til B. Hættan er að gleyma að æfa þau högg sem við þurfum svo mikið að nota, sérstaklega á Íslandi. Halda boltanum lágum, sveigja upp í eða með vindi. Það skemmtilega og gagnlega við Trackman er einmitt það að hægt er að nota tækið til að læra betur að slá mismunandi högg, meira að segja hægt að setja inn þá vindátt, vindstyrk og hitastig sem maður vill.“