Eygló Kristjánsdóttir, félagi í Golfklúbbi Mosfellsbæjar, var með heppnina með sér á golfhátíð GSÍ sem hófst þann 14. ágúst á 80 ára afmælisdegi GSÍ. Kylfingar voru hvattir til að spila golf um allt land og birta mynd af ráshópnum á Instagram undir myllumerkjunum #sladuigegn og #gsi80.
Það gerði Eygló líkt og hundruðir aðrir sem tóku þátt í þessum skemmtilega leik. Dregið var í leiknum í gær og var Eygló sú heppna. Hún fær gjafabréf á tvær nætur með morgunverð á Fosshótel Stykkishólmi og þriggja rétta kvöldverði fyrir tvo annað kvöldið ásamt golfveislu.
„Ég byrjaði í golfi vegna þess að sonur minn var mjög áhugasamur og til að styðja hann í áhugamálinu og finna út hvað maður gerir til að byrja í sportinu fór ég á námskeið hjá Arnari Snæ Hákonarsyni í Básum og þar með féll ég alveg fyrir þessu. Pjakkurinn hefur reyndar snúið sér að öðru en ég er alveg dolfallinn,“ segir Eygló við golf.is.
„Ég tók eitt sumar, 2019 í GHG í Hveragerði, þó ég byggi í Reykjavík. Þar eru bróðir minn og mágkona félagar. Við spilum töluvert saman. Síðustu tvö ár hef ég verið í Golfklúbbi Mosfellsbæjar og nýti Bakkakotsvöllinn mikill. Mér nægir yfirleitt að spila 9 holur og taka tæplega tvo tíma á vellinum- þá er ég alveg endurnærð.“
Eygló segir að skemmtilegasta við golfið sé félagsskapurinn.
„Að fara golfhring með góðum félögum er bara engu líkt. Útiveran og útrásin við að koma sér út úr allskonar vandræðum og sjá og finna þegar gengur vel og maður finnur að það er framför á spilamennskunni í leiknum. Bakkakotsvöllinn þekki ég best og þar líður mér vel. Það er heimilislegt að koma á Bakkakotsvöll og gott andrúmsloft. Gufudalsvöllur í Hveragerði er líka yndislegur en af stóru völlunum finnst mér Vestmannaeyjavöllur mjög skemmtilegur. Annars finnst mér líka bara gaman að vita af því að ég eigi eftir að prófa marga velli þó ég reyni að vera dugleg að tékka á rástíma hvert sem ég fer.“
Framtíðarmarkmið Eyglóar í golfinu eru einföld.
„Lifa, njóta og halda áfram að kynnast skemmtilegu fólki í golfinu. Golfið er stór hluti af því að halda heilsunni, svo ég geti haldið áfram sem lengst að skottast úti á vellinum. Það væri bónus ef mér færi eitthvað fram – því það er alveg ljóst að það er hellingur sem ég á ólært og á eftir að tileinka mér. Ég ætla að njóta þess að fara í Stykkishólm og njóta alls þess sem svæðið hefur upp á að bjóða,“ segir Eygló við golf.is.