Fall er fararheill átti vel við um þá feðga Heiðar Davíð Bragason og Veigar Heiðarsson í dag á 2. holu Hólmsvallar í Leiru á Íslandsmótinu í golfi.
Heiðar Davíð var þar í hlutverki aðstoðarmanns Veigars – og ekki gekk betur en svo að Heiðar Davíð hvolfdi kerrunni við 2. teig eins og sjá má í myndasyrpunni hér fyrir neðan.
Íþróttastjóri Golfklúbbs Akureyrar var ekki lengi að vinna úr stöðunni og kom sér á beinu brautina á ný.
Það gerði einnig sonur hans því hann fékk fugl á 2. braut og fylgdi því eftir með því að leika á 66 höggum eða 5 höggum undir pari vallar.
Hann fór upp um 39 sæti og er í 15. sæti fyrir þriðja keppnisdaginn.
Heiðar Davíð á góðar minningar frá Hólmsvelli í Leiru en hann varð Íslandsmeistari árið 2005 – og er það eini Íslandsmeistaratitill hans til þessa.
Elsta heimild um málsháttinn fall er fararheill er úr Heimskringlu Snorra Sturlusonar, nánar tiltekið úr Haralds sögu Sigurðarsonar.
Haraldur konungur Guðinason sat á svörtum hesti, blesóttum. Hesturinn féll undir honum og konungur af fram. Stóð hann upp skjótt og mælti: „Fall er fararheill!“
Merking sú sem Haraldur lagði í orð sín er að fall hans af hestinum væri fyrirboði þess að ferðin yrði honum til góðs.
Orðið fararheill er notað um heillaríkt ferðalag. Fall er fararheill er gjarnan notað nú um óhapp sem verður í upphafi ferðar jafnvel án þess að viðkomandi hrasi eða detti.