Fannar Már Jóhannsson hefur verið ráðinn markaðsstjóri Golfsambands Íslands og mun gegna því hlutverki að auka vöxt og sýnileika íþróttarinnar. Alls bárust sambandinu 56 umsóknir um starfið.
Fannar hefur víðtæka reynslu og skilning á golfíþróttinni og útbreiðslu hennar. Hann gengur til liðs við Golfsambandið frá Norðurorku, en hann starfaði áður hjá Golfklúbbi Akureyrar til fjölda ára. Fannar er verkfræðingur að mennt og hefur fengist við fjölbreytt verkefni á sínum starfsferli.
„Ég er hrikalega spenntur að taka við þessu hlutverki og fyrir þeim fjölbreyttu verkefnum sem fylgja starfinu. Ég vil leggja áherslu á að upphefja okkar frábæru íþrótt, kylfinga og golfvelli um allt land. Golfið er í mikilli uppsveiflu og það verður gaman að fá að vera hluti af þeirri vegferð.“ sagði Fannar sem hefur störf í lok apríl.
Golfsamband Íslands býður Fannar Má velkominn til starfa.