Auglýsing

Á félagsfundi Golfklúbbs Mosfellsbæjar sem haldinn var í Lágafellsskóla fimmtudaginn 1. október var samþykkt með nærri því öllum greiddum atkvæðum 96 félagsmanna að ráðast í byggingu nýrrar Íþróttamiðstöðvar við Hlíðavöll. Um er að ræða afar metnaðarfullt verkefni fyrir Golfklúbb Mosfellsbæjar þar sem aðstaða verður byggð upp við Hlíðavöll sem mun verða í fremstu röð á Íslandi. Mosfellsbær styður dyggilega við bakið á Golfklúbbnum við þetta verkefni en fjármögnun verkefnisins hefur verið tryggð hjá Landsbankanum.

Í nýrri Íþróttamiðstöð mun verða hægt að stunda æfingar og golfleik allt árið um kringu. Á neðri hæð hússins, sem verður frágengin í 2. áfanga verksins, verður að finna allt að 330 fermetra inni púttflöt, net til að slá högg innanhúss, aðstöðu fyrir sérhæfða líkamsrækt fyrir kylfinga og búningaaðstöðu. Þar verður einnig að finna sérhæfð rými fyrir fullkomna golfherma þar sem hægt verður æfa og leika golf í allt árið um kring. Ennfremur verður að finna á neðri hæðinni fjölnota sal sem nýttur verður fyrir börn og unglinga sem iðka golf á vegum GM auk þess sem þjálfara og kennarar klúbbsins munu hafa aðstöðu sína á neðri hæð.

Í fyrsta áfanga verksins verður hinsvegar lögð áhersla á að klára efri hæð hússins en þar verður að finna móttöku kylfinga, skrifstofur klúbbsins og salernisaðstöðu auk hátíðarsalar og nauðsynlegrar aðstöðu vegna þjónustu við kylfinga. Í fyrsta áfanga verksins verður húsið frágengið að utan ásamt því að ný 640 fermetra æfingaflöt veðrur tekin í notkun. Lóð í kringum húsið verður frágengin sem og bílastæði og aðkoma. Byggingarlóð hússins er afar glæsileg og situr það beint yfir núverandi 12. holu vallarsins sem mun verða 18. hola hans eftir að húsið verður tekin í notkun.

Vinna er hafin við lokahönnun verksins og er stefnt að því að setja 1. áfanga í útboð haustið 2015 og munu framkvæmdir hefjast um leið og hægt er. Stefnt er að því að taka bygginguna í notkun fyrir golfsumarið 2017.

Hlíðavöllur hefur skipað sér í hóp með bestu 18 holu golfvöllum á Íslandi og hýsti í sumar sitt fyrsta mót á Eimskipsmótaröð Golfsambands Íslands. Mikil uppbygging hefur átt sér stað á Hlíðavelli á undanförnum árum og er ljóst að með þessu verkefni er hafin lokakafli þeirra framkvæmda og mun aðstaða Golfklúbbs Mosfellsbæjar verða glæsileg þegar honum lýkur.

Áhugasamir geta nálgast kynningu á verkefninu með því að smella hér.


Screenshot (32).png

Screenshot (31).png

Screenshot (30).png

 

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ