Auglýsing

Landsliðshópur Golfsambands Íslands kom saman um síðastliðna helgi til æfinga og undirbúnings fyrir komandi tímabil. Ólafur Björn Loftsson, afreksstjóri GSÍ, sá um skipulag æfingahelgarinnar, en hópurinn mun hittast á ný dagana 4.-6. mars.

Á fyrsta æfingadeginum, föstudaginn 4. febrúar, sáu PGA- kennararnir Nökkvi – og Steinn Baugur Gunnarssynir um æfingu í Hraunkoti fyrir landsliðshópinn ásamt afreksstjóranum, Ólafi Birni Loftssyni.

Á æfingunni var lögð áhersla á lestur flata og taktíska nálgun í púttum.

Nökkvi kynnti jafnframt fyrir kylfingum AimPoint Express sem er aðferð til að lesa flatir en margir af bestu kylfingum heims styðjast við hana.

Á öðrum æfingadeginum, laugardaginn 5. febrúar, léku kylfingar meðal annars í Landsmóti í golfhermum hjá æfingaaðstöðu GKG í Kórnum.

Á þriðja æfingadeginum, sunnudaginn 6. febrúar, hélt Ólafur Björn fyrirlestra um leikskilning þar sem kafað var djúpt í leikskipulag og greiningu á golfleiknum með aðstoð tölfræði.

„Það var virkilega ánægjulegt að vinna með kylfingunum okkar á þessum æfingadögum. Það var ánægjulegt að flestir landsliðskylfingarnir gátu tekið þátt. Nokkrir þeirra gátu því miður ekki tekið þátt vegna Covid-19. Landsliðskylfingarnir okkar æfa stíft um þessar mundir fyrir komandi keppnistímabil. Ég finn fyrir miklum áhuga og krafti á meðal þeirra. Það gefur okkur mikið að fá tækifæri til að hittast reglulega, keppa innbyrðis og styrkja tengslin,“ segir Ólafur Björn við golf.is.

„Að lokum vil ég koma á framfæri þökkum til bræðranna Nökkva og Steins Baugs fyrir áhugarverða og fræðandi æfingu. Einnig vil ég þakka Golfklúbbnum Keili og Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar fyrir að taka vel á móti hópnum og bjóða upp á æfingaaðstöðu fyrir þetta verkefni.“

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ