Golfsamband Íslands

Fjölbreytt dagskrá og áherslur í æfingabúðum landsliðshóps GSÍ

Landsliðshópur Golfsambands Íslands kom saman um síðastliðna helgi til æfinga og undirbúnings fyrir komandi tímabil. Ólafur Björn Loftsson, afreksstjóri GSÍ, sá um skipulag æfingahelgarinnar, en hópurinn mun hittast á ný dagana 4.-6. mars.

Á fyrsta æfingadeginum, föstudaginn 4. febrúar, sáu PGA- kennararnir Nökkvi – og Steinn Baugur Gunnarssynir um æfingu í Hraunkoti fyrir landsliðshópinn ásamt afreksstjóranum, Ólafi Birni Loftssyni.

Á æfingunni var lögð áhersla á lestur flata og taktíska nálgun í púttum.

Nökkvi kynnti jafnframt fyrir kylfingum AimPoint Express sem er aðferð til að lesa flatir en margir af bestu kylfingum heims styðjast við hana.

Á öðrum æfingadeginum, laugardaginn 5. febrúar, léku kylfingar meðal annars í Landsmóti í golfhermum hjá æfingaaðstöðu GKG í Kórnum.

Á þriðja æfingadeginum, sunnudaginn 6. febrúar, hélt Ólafur Björn fyrirlestra um leikskilning þar sem kafað var djúpt í leikskipulag og greiningu á golfleiknum með aðstoð tölfræði.

„Það var virkilega ánægjulegt að vinna með kylfingunum okkar á þessum æfingadögum. Það var ánægjulegt að flestir landsliðskylfingarnir gátu tekið þátt. Nokkrir þeirra gátu því miður ekki tekið þátt vegna Covid-19. Landsliðskylfingarnir okkar æfa stíft um þessar mundir fyrir komandi keppnistímabil. Ég finn fyrir miklum áhuga og krafti á meðal þeirra. Það gefur okkur mikið að fá tækifæri til að hittast reglulega, keppa innbyrðis og styrkja tengslin,” segir Ólafur Björn við golf.is.

„Að lokum vil ég koma á framfæri þökkum til bræðranna Nökkva og Steins Baugs fyrir áhugarverða og fræðandi æfingu. Einnig vil ég þakka Golfklúbbnum Keili og Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar fyrir að taka vel á móti hópnum og bjóða upp á æfingaaðstöðu fyrir þetta verkefni.”

Exit mobile version