Helsta áherslubreytingin á GSÍ mótaröðinni 2024 er að mótin sem telja á stigalista GSÍ verða fjögur talsins. Mótin eru Korpubikarinn, Hvaleyrarbikarinn, Íslandsmótið í holukeppni og Íslandsmótið í golfi. Lagt er upp með að Korpu- og Hvaleyrarbikarinn verði árleg mót á mótaröðinni.
Áhersla er lögð á að mótin á GSÍ mótaröðinni skarist sem minnst við sterk alþjóðleg áhugamannamót sem eykur líkurnar á því að okkar bestu áhugakylfingar geti tekið þátt í okkar stærstu mótum hérlendis.
Athygli er vakin á því að karlar og konur keppa ekki á sama tíma í Íslandsmótinu í holukeppni. Konurnar keppa í Mosfellsbæ um miðjan júní og karlarnir á Akranesi viku síðar. Með þessari breytingu geta fleiri keppendur tekið þátt þar sem 36 holur höggleikur sker úr um hvaða 16 keppendur keppa í útsláttarkeppni í holukeppni um Íslansmeistaratitilinn. Íslandsmótið í golfi fer fram á Hólmsvelli í Leiru hjá Golfklúbbi Suðurnesja dagana 18.-21. júlí.
Að auki verða haldin tvö vormót og eitt haustmót en þessi mót eru með meiri sveigjanleika en mótin á GSÍ mótaröðinni. Vor- og haustmótin telja ekki á stigalista GSÍ og telja ekki á heimslista áhugamanna. Mótin bjóða upp á fjölbreytileika hvað varðar fjölda þátttakenda, fjölda hola, leikfyrirkomulag o.s.fr. Þátttökugjald í mótin verða hærri og munu þeir kylfingar sem enda á meðal 25% efstu kylfinganna hljóta verðlaunafé. Eitt af markmiðunum með mótunum er að höfða til fleiri kylfinga sem hafa ekki tekið virkan þátt í mótahaldi afrekskylfinga undanfarin ár.
Jafnframt verða tvö mót haldin eingöngu fyrir kylfinga á aldrinum 19-23 ára þar sem umgjörð mótanna verður í lágmarki. Meginmarkmið mótanna sem bera nöfnin heimslistamót er að telja til stiga á heimslista áhugamanna.
Í hlaðvarpsþætti GSÍ fara Kristín María Þorsteinsdóttir mótastjóri og Ólafur Björn Loftsson afreksstjóri yfir helstu áherslurnar á GSÍ mótaröðinni. Þátturinn er í heild sinni hér fyrir neðan.
Dagsetning | Mót | Klúbbur | Hvar á landinu? |
19.-20. maí | Vormót* | GS | Reykjanesbær |
25.-26. maí | Vormót* | NK | Seltjarnarnes |
1.-2. júní | Korpubikarinn | GR | Reykjavík |
14.-16. júní | Íslandsmótið í holukeppni – konur | GM | Mosfellsbær |
22.-24. júní | Íslandsmótið í holukeppni – karlar | GL | Akranes |
18.-21. júlí | Íslandsmótið í golfi | GS | Reykjanesbær |
10.-11. ágúst | Hvaleyrarbikarinn | GK | Hafnarfjörður |
31.ágúst – 1. sept. | Haustmót* | Ekki ákveðið | Ekki ákveðið |
*Gildir ekki á WAGR og telur ekki á stigalista GSÍ.
Dagsetning | Mót | Klúbbur | Hvar á landinu? |
10.-11. júní | Heimslistamót | GKB | Kiðjaberg |
15.-16. ágúst | Heimslistamót | Ekki ákveðið | Ekki ákveðið |