Golfsamband Íslands

Fjölgað um einn í stjórn GSÍ – ellefu manna stjórn kjörin á golfþingi 2015

Jón Július Karlsson óskar Gylfa Kristinssyni til hamingju með gullmerki GSÍ.

Þing Golfsambands Íslands fór fram s.l. laugardag í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ.  Á þinginu var ársskýrsla GSÍ lögð fram ásamt ársreikningum og fjárhagsáætlun fyrir árið 2016. Alls voru 122 fulltrúar golfklúbba á þinginu en alls gátu klúbbarnir verið með 199 fulltrúa á þinginu.

Ný stjórn var kjörin og eru alls 11 aðilar í stjórninni en fjölgað var um einn í stjórninni. Gylfi Kristinsson og Bergþóra Sigmundsdóttir gáfu ekki kost á sér til endurkjörs en stjórn GSÍ verður þannig skipuð næstu tvö árin.

Haukur Örn Birgisson. Stjórn: Bergsteinn Hjörleifsson, Eggert Ágúst Sverrisson, Kristín Guðmundsdóttir, Rósa Jónsdóttir, Hansína Þorkelsdóttir, Helgi Anton Eiríksson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Gunnar Gunnarsson, Jón Júlíus Karlsson og Theódór Kristjánsson.

Helgi Anton, Hansína og Þorgerður Katrín eru ný í stjórn GSÍ en aðrir voru endurkjörnir.

Fjórir fengu gullmerki GSÍ

Fjórir aðilar fengu gullmerki Golfsambandsins fyrir störf sín og vinnu í þágu golfíþróttarinnar. Páll Ketilsson, Gylfi Kristinsson, Bergþóra Sigmundsdóttir og Hörður Þorsteinsson. Sjálfboðaliði ársins var valinn og að þessu sinni var það Viktor Elvar Viktorsson úr Leyni sem var mótsstjóri Íslandsmótsins sem fram fór á Garðavelli á Akranesi í sumar. Viktor sagði að hann tæki við þessari viðurkenningu fyrir hönd allra sjálfboðaliða Leynis sem lögðu hönd á plóginn.

Vinnuhópar gerðu grein fyrir stöðu mála á þeirra sviði en stjórnarmenn skiptu með sér verkstjórn í ýmsum hópum sem hafa unnið eftir þeirri stefnumótun sem var samþykkt á síðasta golfþingi.

Kristín Guðmunsdóttir gjaldkeri GSÍ gerði grein fyrir reikningum sambandsins.

Fjárhagsstaða GSÍ er sterk þrátt fyrir 1,5 milljóna kr. tap en gert var ráð fyrir tæplega 2 milljóna kr. hagnaði í fjárhagsáætlun. Rekstrartekjur ársins 2015 voru 151.241.944 milljónir kr., en rekstrargjöld voru  152.798.232 milljónir kr. Í máli Kristínar kom m.a. fram að GSÍ gerir ráð fyrir að auka tekjur sambandsins m.a. með fleiri samningum við styrktaraðila og endurskoða þyrfti m.a. samning GSÍ við RÚV.

Haukur Örn Birgisson forseti GSÍ kynnti niðurstöðu starfshóps sem fjallað um framtíðarsýn Eimskipsmótaraðarinnar. Töluverðar breytingar eru fyrirhugaðar á mótaröð bestu kylfinga landsins og eru tillögurnar að finna í árskýrslu GSÍ.

Stefnt er að því að á næstu árum verði búið að flokka keppnisvelli landsins og í framtíðinni verður Íslandsmótið haldið á þeim völlum sem uppfylla ákveðinn skilyrði sem sett verða fram í þessu flokkunarkerfi. Fallið var frá þeirri hugmynd að Íslandsmótið fari fram í fjögur skipti á fimm ára tímabili á völlum á Höfuðborgarsvæðinu.

Breytingar á GSÍ kortum – handhafar greiða 1500 kr. fyrir hvern hring

Miklar umræður áttu sér stað á þinginu um GSÍ kortin sem gefin eru út til samstarfsaðila GSÍ, fjölmiðla og klúbba. Samþykkt var á þinginu að handhafar GSÍ korta greiði 1500 kr. gjald á þeim völlum sem þeir nota kortið sem gildir fyrir tvo kylfinga. Handhafar GSÍ korta geta leikið tvívegis á öllum völlum sem eru innan raða GSÍ tvívegis á hverju ári. Tillaga þess efnis að greitt yrði 1500 kr. gjald var samþykkt einróma.

 

Frá þingi Golfsambandsins í Garðabæ.
Frá þingi Golfsambandsins í Garðabæ.

Bergþóra Sigmundsdóttir og Haukur Örn Birgisson.
Haukur Örn Birgisson og Hörður Þorsteinsson.
Viktor Elvar Viktorsson, sjálfboðaliði ársins 2015.




 

 

Exit mobile version