Auglýsing

Nýverið var úthlutað úr Forskoti, afrekssjóði kylfinga, en alls fá sex atvinnukylfingar styrk úr sjóðnum á árinu 2019. Þetta er í áttunda sinn sem íslenskir kylfingar fá úthlutað úr Forskoti afrekssjóði sem var stofnaður árið 2012.

Kylfingarnir eru:

  • Axel Bóasson, Golfklúbbnum Keili.
  • Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Golfklúbbnum Keili.
  • Guðmundur Ágúst Kristjánsson, Golfklúbbi Reykjavíkur
  • Haraldur Franklín Magnús, Golfklúbbi Reykjavíkur.
  • Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, Golfklúbbi Reykjavíkur.
  • Valdís Þóra Jónsdóttir, Golfklúbbnum Leyni.

Að afrekssjóðnum standa: Eimskip, Valitor, Íslandsbanki, Icelandair Group, Vörður tryggingar, Bláa Lónið og Golfsamband Íslands.

Aðstandendur sjóðsins eru ánægðir með að íslenskt afreksgolf hefur verið í stöðugri framför frá stofnun hans.

Sjóðurinn hefur frá upphafi haft það að markmiði að styðja við þá kylfinga, atvinnumenn sem og áhugamenn, sem stefna á að komast í fremstu röð í heiminum í golfíþróttinni.

Valdís Þóra Jónsdóttir, er fædd árið 1989, leikur hún á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu, LET Evrópumótaröðinni. Þetta er þriðja tímabil Valdísar á þessari mótaröð.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, er fædd árið 1992. Hún er með takmarkaðan keppnisrétt á LPGA mótaröðinni, sterkustu atvinnumótaröð veraldar, á þessu tímabili. Hún er með keppnisrétt á Symetra mótaröðinni í Bandaríkjunum sem er í næst efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða þar í landi.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, er fædd árið 1994. Hún er með keppnisrétt á LET Access mótaröðinni sem er næst sterkasta atvinnumótaröð Evrópu. Þetta er annað tímabil Guðrúnar á þessari mótaröð.

Axel Bóasson, Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús, leika allir á Nordic Tour atvinnumótaröðinni.

Axel Bóasson er fæddur árið 1990. Hann varð stigameistari á Nordic Tour árið 2017 sem tryggði honum keppnisrétt á Challenge Tour Evrópumótaröðinni á síðasta ári.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson er fæddur árið 1992. Hann gerðist atvinnukylfingur árið 2017 eftir að hafa náð góðum árangri í bandaríska háskólagolfinu.

Haraldur Franklín Magnús er fæddur árið 1991. Hann gerðist atvinnukylfingur árið 2017 og náði m.a. að tryggja sér keppnisrétt á Opna breska meistaramótinu í fyrra.

Um sjóðinn

Forskot afrekssjóður var stofnaður um mitt ár 2012 og þann 14. júní sama ár var í fyrsta sinn úthlutað úr sjóðnum. Stofnendur voru Eimskip, Valitor, Golfsamband Íslands, Íslandsbanki og Icelandair Group. Vörður tryggingar bættist í hópinn árið 2016 og Bláa Lónið árið 2017.

Markmiðið með stofnun Forskots afrekssjóðs árið 2012 var að búa til reynslu og þekkingarbrunn sem skili sér til kylfinga framtíðarinnar og ungir kylfingar geti litið til í sínum framtíðaráætlunum. Sjóðurinn hefur frá upphafi beint sjónum sínum að fimm kylfingum á hverjum tíma og leitast við að gera þeim auðveldara fyrir að æfa og keppa við bestu skilyrði í samræmi við það sem gerist á alþjóðlegum vettvangi.

Frá því að Forskot afrekssjóður var settur á laggirnar hefur slagkrafturinn hjá íslenskum atvinnukylfingum verið enn meiri en áður og samtakamáttur þeirra aðila sem koma að sjóðnum fleytt okkar bestu kylfingum áfram inn á nýjar brautir.

Ríkar kröfur eru gerðar til þessara íþróttamanna um ráðstöfun styrkjanna. Ber þeim að leggja fram æfinga- og keppnisáætlanir auk fjárhagsáætlunar fyrir verkefni sín auk þess sem gerðir eru sérstakir samningar við hvern kylfing um að þeir virði reglur Íþrótta- og Ólympíuhreyfingarinnar.

Þeir kylfingar sem fá úthlutað úr Forskoti afrekssjóði eru sterkar fyrirmyndir. Það að eiga afreksmenn í íþróttum er stór og mikilvægur þáttur í því að fá börn og unglinga til að sinna íþróttum. Því er litið á sjóðinn sem mikilvægt skref til að efla íþróttir barna og unglinga og hvetja þau til dáða.

Einn fulltrúi frá þeim sem aðild eiga að Forskoti er í stjórn sjóðsins og auk þess hefur stjórn sér til ráðgjafar fagteymi sem gerir tillögur um úthlutanir úr sjóðnum.

Nánari upplýsingar á forskot.is

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ