Ólafía Þórunn Kristinsdóttir byrjaði með látum á fyrsta keppnisdegi á LET Evrópumótaröð kvenna á sterku móti sem fram fer í Abu Dhabi. GR-ingurinn lék á 65 höggum eða -7. Hún er efst þessa stundina en nokkrir kylfingar eiga eftir að ljúka leik í dag.
Ólafía, sem er þrefaldur Íslandsmeistari í golfi (2011, 2014 og 2016,) fékk alls átta fugla á hringnum og tapaði aðeins einu höggi með skolla á 14. braut.
„Ég var eiginlega smá leið í dag þar sem að frænka mín sem mér þótti vænt um lést í gær. Hún passaði mig alltaf þegar ég var lítil þegar foreldrar mínir fóru erlendis í golfferðir. Ég var alltaf að hugsa um hana í dag. Það setur hlutina í samhengi þegar eitthvað svona gerist, það er svo margt sem er mikilvægara en golf. En ég segi að þessi hringur hafi verið henni til heiðurs.
[pull_quote_right]Þessi hringur var henni til heiðurs[/pull_quote_right]
Kristinn Jósep bróðir minn var að reyna að hjálpa mér og hressa mig við í dag. Hann stóð sig mjög vel í dag, ég er mjög þakklát fyrir það. Ég var að gera allt vel í dag. Sló boltann nálægt holu og svo púttaði ég frábærlega. Ég er betur undirbúin fyrir þetta mót. Átti góðan æfingahring í fyrradag og svo frábæran æfingadag í gær, æfði vel og svo fór ég í keppnir við Oliviu vinkonu mína og reyndi að hafa gaman í leiðinni,“ sagði Ólafía við golf.is í morgun.
Að loknu mótinu í Abu Dhabi fer Ólafía til Indlands þar sem hún tekur þátt á LET Evrópumótaröðinni dagana 11.-13. nóvember. Að því loknu fer Ólafía Þórunn til Bandaríkjanna þar sem hún tekur þátt á lokastigi úrtökumótsins fyrir LPGA atvinnumótaröðina í Bandaríkjunum sem fram fer í lok nóvember og byrjun desember.










