Guðmundur Ágúst Kristjánsson lék frábært golf á Seminole Intercollegiate háskólamótinu sem lauk í gær í Bandaríkjunum. Guðmundur gerði sér lítið fyrir og sigraði á mótinu en hann lék á 17 höggum undir á 54 holum sem er gríðarlega gott skor. Þetta er í fyrsta sinn sem Guðmundur Ágúst sigrar á háskólamóti en hann er á lokaári sínu hjá East Tennesse State háskólaliðinu.
Árangur Guðmundar er athyglisverður þar sem að margir af sterkustu háskólaleikmönnum í Bandaríkjunum voru að keppa á þessu móti. Þar má nefna að Florida State sigraði á mótinu í liðakeppninni en það skólalið er í öðru sæti á styrkleikalista NCAA háskóladeildarinnar. East Tennesse State varð i öðru sæti, í þriðja sæti varð Southern California en sá skóli er í fimmta sæti styrkleikalistans. Georgia Tech, sem er í fjórða sæti styrkleikaslistans varð í fjórða sæti á þessu móti.
Guðmundur var þremur höggum betri en næsti keppandi en Guðmundur lagði grunninn að sigrinum með því að leika fyrsta hringinn á -9 eða 63 höggum. GR-ingurinn sem leikur fyrir East Tennesse State skólann tapaði aðeins tveimur höggum á 54 holum en alls fékk hann 17 fugla og einn örn á hringjunum þremur.
Mótið fór fram á Southwood vellinum sem er í Tallahasse í Flórída en East Tennesse State varð í öðru sæti í liðakeppninni.
Guðmundur Ágúst jafnaði skólamet hjá ETSU háskólaliðinu á fyrsta hringnum og hann var með sjö högga forskot fyrir lokahringinn.
Jack Maguire úr Florida State háskólaliðinu varð annar en hann er í 22. sæti á styrkleikalistanum í bandaríska háskólagolfinu og Will Starke frá South Carolina varð þriðji en hann er í 11. sæti á styrkleikalistanum. Á lokakaflanum náði Maguire að minnka muninn í eitt högg en Guðmundur Ágúst svaraði því með því að fá tvo fugla á síðustu þremur holunum.
„Þetta hefur verið frábær vika og það er góð tilfinning sem fylgir því að sigra á þessu móti. Ég púttaði vel á lokahringnum og setti niður langt pútt fyrir fugli á lokaholunni. Ég gerði mér ekki grein fyrir stöðunni þar sem að Jack Maguire var á undan mér í ráshóp. Ég einbeitt mér að því sem ég ætlaði að gera og slá höggin mín. Ég náði að bjarga góðum pörum á 15. og 16. Á lokaholunum var ég lánsamur að setja niður góð pútt sem skiptu miklu máli,“ sagði Guðmundur Ágúst í viðtali sem birt var á heimasíðu ETSU háskólaliðsins.
Með lokapúttinu tryggði íslenski kylfingurinn ETSU annað sætið á þessu móti – og var þar með betri árangur en þrír skólar sem eru á meðal 10 efstu á styrkleikalista NCAA deildarinnar. Alls voru níu skólar á þessu móti í hópi 50 efstu á styrleikalista NCAA deildarinnar í golfi. ETSU skólaliðið er í 41. sæti styrkleikalistans.
Fred Warren þjálfari ETSU sagði eftir mótið að hann væri mjög stoltur af íslenska kylfingnum. „Hann lék frábærlega á þessu móti. Það er mikil áskorun að halda efsta sætinu marga hringi í röð á slíku móti þar sem að margir sterkir keppendur eru að leika.“