Frumkvöðlar kveiktu nýjan neista í Grundarfirði - Golfsamband Íslands
/

Deildu:

Auglýsing

Grein úr 1. tbl. Golf á Íslandi.

Kvennastarfið hjá Golfklúbbnum Vestari í Grundarfirði byrjar sannarlega vel á árinu 2020. Um miðjan maí fór fram vel heppnað kynningarkvöld fyrir konur á Bárarvelli í Grundarfirði – en völlurinn þykir vera einn af áhugaverðustu 9 holu golfvöllum landsins. 

Anna María Reynisdóttir og golfvinkonur hennar úr Vestari höfðu frumkvæði að því að fá fleiri konur inn í starfið. Og byrjunin lofar svo sannarlega góðu. 

„Það kom til mín maður sem bað um aðstoð við að koma konunni sinni með sér í þessa skemmtilegu íþrótt. Þessi ágæti maður er mikill kylfingur og hann langaði að áhugamálið hans yrði sameiginlegt áhugamál hjá þeim hjónum.  Ég sagði að sjálfsögðu já og sagði honum að það væri ekkert mál að bjóða henni með mér út á Bárarvöll. Þegar ég hafði sagt já fór ég að hugsa málið aðeins betur og komst að þeirri niðurstöðu að líklega væru fleiri konur sem hefðu áhuga á að byrja í þessari stórskemmtilegu íþrótt,“ segir Anna María þegar hún er innt eftir því hvernig þetta verkefni fór af stað.  

„Ég ákvað að fara aðeins lengra með þetta og auglýsti „kynningarkvöld“ fyrir konur á æfingasvæðinu okkar. Markmiðið var að kynna aðeins fyrir þeim golfið og spila síðan saman fjórar holur – fyrir þær sem vildu. Ég hef stundað blak í mörg ár hér í Grundarfirði og það hefur sýnt sig að konur vilja hafa fleiri en færri með sér í áhugamálið. Og ég fann að ég vildi yfirfæra þessa blakstemningu í golfið. Það var því ekki eftir neinu að bíða.“ 

Anna María segir að þegar kynningarkvöldið hafi verið auglýst þá hafi hún strax fundið fyrir miklum áhuga. 

„Ég hafði samband við tvær golfvinkonur og bað þær um að vera með mér í þessu ef aðsóknin færi fram úr væntingum. Það var ekki að spyrja að því að grundfirskar konur tóku þessu tilboði fagnandi. Það mættu ellefu konur  sem var langt umfram væntingar mínar. Veðrið var frábært og allar aðstæður eins og best verður á kosið.“ 

„Þetta kynningarkvöld var mjög einfalt. Við byrjuðum að slá aðeins á æfingasvæðinu í um 30 mínútur. Síðan fórum út á okkar frábæra golfvöll. Skiptum okkur upp í þrjá ráshópa. Það var vanur kylfingur í hverjum ráshópi og við spiluðum síðan fjórar holur. Ég get ekki annað sagt en að þær sem komu hafi farið ánægðar og sáttar heim. Þær ætla að koma aftur. Ég stefni á að hafa svona kvennakvöld einu sinni í viku fram í júní. Markmiðið er að stækka kvennahópinn hjá okkur – og byrjunin lofar góðu,“ segir Anna María við golf.is. 

<strong>Anna María Reynisdóttir og golfvinkonur hennar úr Vestari höfðu frumkvæði að því að fá fleiri konur inn í starfið Og byrjunin lofar svo sannarlega góðu Eins og sjá má er Anna María glerhörð og spilar golf í hvaða veðri sem er <strong>
<strong>Anna María Reynisdóttir og golfvinkonur hennar úr Vestari höfðu frumkvæði að því að fá fleiri konur inn í starfið <strong><br><strong>Og byrjunin lofar svo sannarlega góðu <strong>

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing