Guðmundur Oddsson formaður GKG og Gunnlaugur Sigurðsson fyrrverandi formaður klúbbsins tóku á laugardaginn fyrstu skóflustungu að Íþróttamiðstöð GKG. Þeim til halds og trausts voru bæjarstjórar Kópavogs og Garðabæjar þeir Ármann Kristinn Ólafsson og Gunnar Einarsson.
Í ræðu sinni við þetta tilefni sagði Guðmundur Oddsson að núna loksins eftir 10 ára baráttu væri langþráður draumur GKG-inga að verða að veruleika og þó svo að gamli skálinn hafi sinnt sínu hlutverki með sóma hafi hann fyrir löngu verið sprunginn og því væri ekki seinni vænna að hefja framkvæmdir nú. Með þeim hætti getum við betur sinnt þeim 900 börnum og unglingum sem sækja þjónustu til klúbbsins á hverju ári, 1.300 almennum meðlimum og síðast en ekki síst þeim 250 öldungum sem margir hverjir mæta hvern einasta dag árið um kring og sinna sinni íþrótt.
Íþróttamiðstöð GKG er 1.400 fermetra hús á tveimur hæðum. Efri hæðin mun þjóna almennum kylfingum en þar verður veitingarsalur, skrifstofur, fundar- og kennsluherbergi. Á neðri hæðinni verður glæsileg íþróttaaðstaða með átta golfhermum og sveiflugreiningartækjum af fullkomnustu gerð, pútt – og vippflöt ásamt búningsherbergjum.
Byggingarframkvæmdir eru þegar hafnar af byggingarverktakanum GG Verk og er áætlað að þeim ljúki í mars á næsta ári. Kostnaðaráætlun við heildarverkið er 660 milljónir og greiðir Kópavogur, Garðabær og GKG sinn hvorn sinn þriðjunginn.