Golfsamband Íslands

Gísli flaug beint inn í 32 manna úrslitin á Opna breska áhugamanna mótinu

Gísli Sveinbergsson slær hér á 10. teig á Hvaleyrarvelli. Mynd/seth@golf.is

Gísli Sveinbergsson úr Keili keppir eftir hádegi í dag í 2. umferð holukeppninnar á Opna breska áhugamannamótinu. Gísli endaði í 11.-18. sæti eftir höggleikinn þar sem hann lék á -5 samtals á tveimur hringjum.

Gísli var efstur eftir fyrsta keppnisdaginn þar sem hann setti nýtt vallarmet á Princes vellinum, en hann lék á 64 höggum eða -8. Á öðrum hringnum lék Gísli á Royal St. George’s vellinum og þar lék hann á +3 eða 73 höggum.

Henning Darri Þórðarson úr Keili endaði í 183. sæti á +5 samtals (71-76) 147 högg. Rúnar Arnórsson, einnig úr Keili, endaði í 139. sæti en hann lék frábært golf á öðrum keppnisdeginum og fór upp um rúmlega 100 sæti eftir að hafa leikið fyrsta hringinn á 77 höggum eða +5. Rúnar lék síðari hringinn á -2 á Royal St. George’s vellinum og var samtals á 145 höggum (77-68).

Opna breska áhugamannamótið er eitt sterkasta áhugamannamót veraldar. Sigurvegarinn fær keppnisrétt á risamótum á borð við Opna breska áhugamannamótið og Mastersmótið á Augusta.

Að loknum 36 holum komust 64 efstu keppendurnir komast í holukeppnina af alls 288 keppendum. Gísli fór beint inn í 32 manna úrslitin og á hann leik kl. 13:42 í dag.

Staðan á mótinu: 

Gísli lék frábært golf á fyrsta hringnum en hann fékk alls átta fugla og tapaði ekki höggi á hringnum. Gísli bætti þar með vallarmetið af öftustu teigum á Princes sem var áður í eigu Paul Dunne, en Írinn spilaði á 65 höggum árið 2013.

 

Opna breska áhugamannamótið á sér langa sögu eða allt frá árinu 1885 þegar það fór fyrst fram á  Royal Liverpool golfvellinum. Keppendur á mótinu í ár eru frá 40 þjóðum og er leikið á Royal St. Georges og Prince golfvöllunum í Kent.

Margir þekktir kylfingar hafa sigrað á þessu móti og má þar nefna Matteo Manassero, Sergio Garcia og Jose Maria Olazabal.

 

Exit mobile version