Gísli Sveinbergsson úr GK skrifaði í kvöld undir samning um skólastyrk við Kent State háskólann í Bandaríkjunum. Frá þessu er greint á heimasíðu Golfklúbbsins Keilis.
Kent State er gífurlega sterkur háskóli þegar kemur að golfi og mun Gísli byrja að leika fyrir skólann næsta haust. Skrifað var undir skólastyrkinn í golfskála Keilis og voru formaður Keilis, íþróttastjóri og framkvæmdastjóri viðstaddir undirskriftina.
Gísli var valinn efnilegastur pilta af afreksnefnd GSÍ 2014. Hann er einnig efstur íslenskra áhugamanna á heimslista áhugamanna (WAGR), en hann er í 105. sæti, sem er besti árangur Íslendings frá stofnun listans 2007.
„Gísli hefur sýnt það með árangri sínum að hann er án efa ein allra bjartasta von okkar Íslendinga í golfheiminum. Hann er vinnusamur, metnaðarfullur, yfirvegaður, alltaf bjartsýnn og jákvæður. Gísli ber með sér alla kosti afreksíþróttamanns og er afar góð fyrirmynd annara,“ segir Úlfar Jónsson, landsliðsþjálfari.