Golfklúbbur Mosfellsbæjar og Golfklúbburinn Leynir á Akranesi hafa komist að samkomulagi um viðamikið samstarf á milli golfklúbbanna. Formenn klúbbanna, Kári Tryggvason (GM) og O. Pétur Ottesen (GL) skrifuðu undir samning þess efnis í dag í Mosfellsbæ.
Í tilkynningu frá klúbbunum kemur fram að samningurinn taki á ýmsum þáttum er varðar vallarstjórn og faglega umhirðu og með möguleika á útvíkkun samstarfsins, sem snýr m.a. að golfkennslu, nýtingu tækja og annarra þátta.
Að auki fá félagsmenn beggja klúbba að njóta samstarfsins með góðum vinavallarsamningi sem felur m.a. í sér að vallargjald verður umtalsvert lægra en í venjulegum vinavallasamningum auk þess sem meðlimir GM og GL fá tækifæri til þess að bóka rástíma með dags fyrirvara umfram aðra gestaspilara á völlum klúbbanna.
Í tilkynningunni kemur fram að það sé von samningsaðila að samstarfið leiði til umtalsverðrar hagræðingar í rekstri klúbbanna á komandi árum ásamt því að auka þá þjónustu sem meðlimir klúbbanna fái í gegnum sitt árgjald. Forsvarsmenn klúbbanna lýsa yfir mikilli ánægju með samninginn og hlakka verulega til samstarfsins.