Golfíþróttin býður upp á margt gott og skemmtilegt, og þar á meðal góða hreyfingu. Sem dæmi má nefna að meðalkarlmaður sem gengur með golfpokann á öxlunum 18 holur má búast við því að brenna um 2.500 hitaeiningum á hringnum sem tekur um fjórar klst. Konur brenna að meðaltali 1.500 hitaeiningum á 18 holum.
Til samanburðar má nefna að 85 kg. karlmaður sem hleypur 15 km á 1 ½ klst. brennir um 1.400 hitaeiningum á þeim tíma. Ef sá hinn sami myndi synda 6 km á 2 klst. væri hann nálægt því að brenna 1.400 hiteiningum.
Samkvæmt ýmsum rannsóknum er ekki mikill munur á því að bera golfpokann á öxlunum eða nota golfkerru. Karlmaður, sem skilgreindur var hér fyrir ofan sem meðalmaður, brennir mjög svipuðum fjölda hitaeininga á 18 holum og sá sem er ekki með golfkerru eða um 2.500 hitaeiningum.
Kylfusveinamenningin hefur aldrei náð sér á strik á Íslandi nema í keppnisgolfi þar sem margir afrekskylfingar nýta sér kylfusveininn þegar mest á reynir. Kylfingar sem ganga 18 holur með aðstoðarmann á „pokanum“ brenna um 1.200 hitaeiningum. Eins og áður er miðað við meðalkarlmann.
Margir nýta sér golfbíla þegar þeir leika golf og á 18 holu golfhring má gera ráð fyrir að meðalkarlmaður á golfbíl brenni um 800 hitaeiningum. Þeir sem nýta sér golfbíla ganga að meðaltali 3,8 km. á 18. holu hring.
Heimildir: Golflink.com og Golfdigest.com