Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er í góðri stöðu fyrir lokahringinn á LET Access mótaröðinni í Sviss. GR-ingurinn lék á 69 höggum í dag eða -3 og er hún samtals á -3 (72-69). Ólafía fór upp um 17 sæti í dag og er hún sem stendur í 10. sæti en keppni er ekki lokið í dag.
Lokahringurinn fer fram á morgun en þetta er annað mótið hjá Ólafíu á LET Access mótaröðinni á þessu tímabil en mótaröðin er sú næst sterkasta í Evrópu.
Ólafía lék á sínu fyrsta móti á Terre Blanche mótinu í Frakklandi í lok mars og þar náði hún fínum árangri og lék á einu höggi undir pari samtals og endaði á meðal 15 efstu.
Alls eru 126 keppendur á þessu móti frá 28 þjóðum. Mótið fer fram á Golf Club Gams Werdenberg í Gams í Sviss. Heildarverðlaunaféð er 4,3 milljónir kr.
Margir kylfingar sem eru með keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni eru á meðal keppenda á þessu móti. Mótið er því sterkt og gefur mörg stig á heimslistann.
Þetta er annað mótið á þessu ári hjá Ólafíu en hún undirbýr sig af krafti fyrir fyrsta mótið á sjálfri LET Evrópumótaröðinni í byrjun maí. Ólafía er með keppnisrétt á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu í kvennaflokki en hún fær samt sem áður ekki mörg tækifæri á þeirri mótaröð á sínu fyrsta keppnistímabili. Hún nýtir því hvert tækifæri til þess að keppa á næst sterkustu atvinnumótaröð Evrópu, LET Access mótaröðinni, en þar eru tveir íslenskir kylfingar með keppnisrétt. Ólafía Þórunn og Valdís Þóra Jónsdóttir úr GL.