Site icon Golfsamband Íslands

Golf er skemmtilegasta íþróttin

– Ragna Ingólfsdóttir Ólympíufari og margfaldur Íslandsmeistari í badminton er byrjuð í golfi af krafti

Golf er skemmtilegasta íþrótti sem ég veit um. Í raun er ekkert skemmtilegra en að spila hring í góðum félagsskap,“ segir Ragna Ingólfsdóttir sem var í fremstu röð á heimsvísu í badmintoníþróttinni. Ólympíufarinn hefur á undanförnum misserum lagt sig fram við að bæta sig í golfinu. Áhugi Rögnu á golfi varð til þegar hún kynntist eiginmanni sínum, Steini Baugi Gunnarssyni, sem er þaulreyndur afrekskylfingur úr Nesklúbbnum.

„Ég gerði mér grein fyrir því að ég þyrfti að koma mér í golfið eftir að ég kynntist honum Steina mínum. Hann hefur spilað golf frá unga aldri en ég hafði lítið sem ekkert slegið golfbolta áður en hann kom inn í líf mitt. Ég átti reyndar þrjár kylfur á þeim tíma, fimmu, sjöu og pútter.  Árið 2010 byrjaði ég fyrir alvöru í golfinu þegar ég fékk inngöngu í Nesklúbbinn og ég fékk mér betri útbúnað í kjölfarið,“ segir Ragna.

Árið 2010 byrjaði ég fyrir alvöru í golfinu

Þrotlausar æfingar í rúmlega tvo áratugi í badmintoníþróttinni skiluðu sér að einhverju leyti í golfíþróttina þegar Ragna fór að spila meira eftir að afreksferlinum lauk.
„Það kom mér á óvart hversu vel mér gekk þegar ég byrjaði í golfinu. Samhæfingin úr badmintoníþróttinni kemur sér eflaust vel. Golfsveiflan var því ekkert stórmál og mér gekk vel í löngu höggunum en púttin voru erfiðust. Ég var aðeins byrjuð að keppa í golfi á meðan ég var enn í badmintoninu. Ég var því afreksmiðuð og vildi standa mig vel og sigra í mótum.

Ég setti mér markmið að komast undir 10 í forgjöf eins fljótt og ég gæti.

Ég setti mér markmið að komast undir 10 í forgjöf eins fljótt og ég gæti. Þessi nálgun hefur aðeins breyst hjá mér. Ég set mér markmið fyrir hvert sumar en ég er uppteknari af því að njóta en að sigra. Í badmintoninu snerist allt um að verða eins góður spilari og ég mögulega gæti. Verða ein af þeim bestu í heiminum. Þar snerist allt um markmiðasetningu, líkamlegar og andlegar æfingar og miklu meiri alvara í því heldur en nokkurn tímann í golfinu. Eins og áður segir þá er margt sem ég get nýtt mér úr badmintoninu í golfinu. Líkamssnúningurinn, sveigjanleikinn og styrkur í baki og kvið kemur að góðum notum.  Það eru líka ákveðnar úlnliðshreyfingar og framhandleggshreyfingar sem ég finn að nýtast mér úr badmintoninu.

Ragna segir að fjölbreytileiki golfsins sé einn af stóru kostunum við íþróttina.

„Golfið er svo fjölbreytt, aldrei sömu aðstæður, boltinn alltaf á mismunandi stað, alltaf eitthvað nýtt fyrir hugann að takast á við fyrir hvert högg. Fyrirkomulagið er líka svo flott, ég er í rauninni mest að keppa við sjálfa mig og völlinn. Útiveran, gangan og félagsskapurinn. Það er bara allt skemmtilegt við golf.“

Þrátt fyrir að vera þaulreynd keppniskona var Ragna með „fiðrildi í maganum“ í sumar þegar hún tók þátt í Íslandsmóti golfklúbba með Nesklúbbnum.

„Ég keppti þar við eina bestu golfkonu landsins, Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur úr Keili. Ég viðurkenni það alveg að mér leið ekkert sérstaklega vel fyrir þá viðureign.

„Mér fannst þessi tegund af keppni mjög skemmtileg. Stemningin var góð hjá Nesklúbbnum og við hvöttum hver aðra. Ég var meðvituð um að leikurinn gegn Guðrúnu Brá yrði erfiður, hún myndi líklega rústa mér. Það var ekki góð tilfinning en ég reyndi að breyta því í að keppa við sjálfa mig og völlinn.

Guðrún Brá var prúðmennskan uppmáluð

Það var engin pressa á mér og ég reyndi bara mitt besta. Guðrún Brá er á allt öðru getustigi í golfinu en ég. Hún var flottur andstæðingur, lét mig ekkert finna fyrir því hversu miklu betri hún er en ég. Prúðmennskan uppmáluð,“ segir Ragna þegar hún lýsir viðureign sinni við Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur.  

Markmiðið hjá Rögnu fyrir næstu ár er að lækka forgjöfina enn frekar.

„Ég náði að lækka forgjöfina frekar fljótt eftir að ég byrjaði. Ég náði að komast niður í 10,5 í forgjöf en ég er í kringum 11 í dag. Eftir að ég eignaðist börnin mín árið 2013 og 2016 hef ég ekki getað spilað mikið. Draumurinn er að komast undir 10 í forgjöf og halda mér þar. Ég ætla líka að spila á undir 80 höggum í móti einhvern daginn. Svo eru það púttin sem ég þarf að æfa, um leið og ég hætti að þrípútta svona oft þá kemst ég niður fyrir 10.“



Að lokum var Ragna spurð um golfsögu sem hún gæti deilt með lesendum Golf á Íslandi.

„Ég spilaði á fyrsta meistaramótinu mínu árið 2010 og þar stóð ég uppi sem sigurvegari í B-flokki. Ári síðar var ég færð upp í besta flokkinn og ég var ánægð með tækifærið að keppa með þeim bestu og leið bara vel á fyrsta teig. Það setti reyndar strik í reikninginn að það var sirka fimm kylfu vindur þennan dag (15 metrar á sekúndu) og nánast ekki hægt að spila golf.

Ég átti síðan sirka 3 sentímetra pressupútt fyrir að setja nítjánda höggið ofan í

Ég náði skolla á fyrstu braut og pari á annarri. Á þriðja teig sló ég út í sjó með sexunni, þorði ekki að skipta um kylfu og sló aftur út í sjó. Ég sló fimmta höggi af teig í rautt. Tók víti og frussaði boltanum nokkra metra áfram. Sló síðan nokkra bolta í viðbót út í sjó með sexunni. Ég gat bara ekki komið boltanum áfram. Ég átti síðan sirka 3 sentímetra pressupútt fyrir að setja nítjánda höggið ofan í. Ég gleymi þessum hring aldrei,“ sagði Ragna Ingólfsdóttir.

Exit mobile version