Golfsamband Íslands

„Golf og badminton er hin fullkomna tvenna“ – áhugaverðu þróunarverkefni ýtt úr vör

Á undanförnum mánuðum hafa nokkrir aðilar unnið að því að setja á laggirnar samstarf hjá þremur golfklúbbum þar sem að iðkendur er boðið upp á að æfa bæði golf – og badminton. Frumherjarnir á bak við þetta verkefni hafa fengið styrk frá Lýðheilsusjóði og Rannís til að kynna þetta verkefni enn betur. 

„Við sem stöndum að þessu þróunarverkefni höfum fengið mjög jákvæðar undirtektir. Næstu skref eru að prófa okkur áfram og sjá hvernig gengur – en við trúum því að golf – og badminton sé hin fullkomna tvenna. Golf á sumrin og badminton á vetrarmánuðum,“ segir Irena Ásdís Óskarsdóttir. 

„Þessi umræða um samstarf golf- og badmintonklúbba fór af stað eftir gott spjall við Arnór Tuma Finnsson og Kjartan Ágúst Valsson. Þeir hafa báðir æft hvoru tveggja, badminton og golf. Við höfðum öll tekið eftir því hversu margt er sameiginlegt þessum greinum og hversu fljótir iðkendur sem hafa æft aðra greinina eru að tileinka sér helstu færniþætti í hinni. Að okkar mati fara þessar greinar fara vel saman. Við erum sannfærð um að þarna sé tækifæri fyrir unga iðkendur sem og eldri iðkendur að nýta sér báðar íþróttir.  

Irena Óskarsdóttir

Golf og badminton eiga það sameiginlegt að vera árstíðarbundar, þá sérstaklega í minni bæjarfélögum þar sem skortir æfingaaðstöðu til að geta stundað íþróttirnar allt árið. Þetta samtal okkar leiddi til þess að við ræddum við þrjá minni badminton- og golfklúbba og kanna hvort þeir væru tilbúnir í samstarf. Markmið samstarfsins er að efla hreyfingu barna og unglinga allt árið um kring og gefa þeim tækifæri til að kynnast báðum íþróttagreinum. Eins sáum við líka að slíkt samstarf gæti eflt félagsleg tengsl þessara iðkendahópa.

Irena er íþróttakennari við Fjölbrautaskóla Garðabæjar og hún mun ljúka PGA golfkennaranámi í vor. Hún hefur stundað badmintoníþróttina frá barnsaldri en er samt sem áður alæta á íþróttir.

„Ég hef æft badminton, fótbolta, blak, golf og skíði – en badminton hefur verið „mín“ íþrótt í gegnum tiðina. Það sem mér hefur þótt áhugavert er hversu fljótir félagar mínir úr badmintoninu eru að ná góðum tökum á golfíþróttinni.

Gott dæmi eru þær Ragna Ingólfsdóttir, Elsa Nielsen og Sara Jónsdóttir. Þær eiga allar frábæran badmintonferil en þær voru gríðarlega snöggar að ná niður forgjöfinni eftir að þær byrjuðu að stunda golf íþróttina. 

Ragna er til að mynda með meiri sveifluhraða heldur en meðaltalið er á LPGA-atvinnu mótaröðinni í Bandaríkjunum. Að mínu mati er helsta ástæðan fyrir skjótum framförum er í fyrsta lagi að hreyfingarnar eðlislega mjög líkar og í öðru lagi höldum við svipað á golfkylfu og badmintonspaða. Gripið er því mjög líkt í báðum íþróttum. 

<strong>Ragna Ingólfsdóttir slær hér upphafshögg Myndsethgolfis<strong>

Eins og áður segir starfar Irena sem íþróttakennari í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Þar hefur hún m.a. kennt badminton. 

„Það vakti strax athygli mína hversu fljótir unglingarnir sem höfðu stundað golf voru að ná góðum tökum á badmintoníþróttinni. Ég var sannfærð um að þetta gæti virkað í báðar áttir. Badminton hefur verið mjög vinsælt í skólanum og velja nemendur áfangann aftur og aftur. Hér í skólanum er lögð áhersla á að nemendur geti valið hreyfingu sem þeim finnst skemmtileg. Það er á dagskrá hjá okkur hér í FG að gefa nemendum í FG tækifæri til að kynnast golfíþróttinni,“ segir Irena sem fór í PGA golfkennaranám hér á Íslandi fyrir tveimur árum og hún lýkur því námi vorið 2021.  

„Haustið 2021 verður boðið upp á badminton- og golfáfanga fyrir nemendur sem eru á íþróttabrautinni hér í FG. Ef sá áfangi gengur vel verður stefnt að því að gefa öllum nemendum í FG tækifæri á að skrá sig í golfáfanga.

Ég hlakka til að sjá útkomuna og ég er ekki í vafa um að þeir nemendur sem fá tækifæri til að prófa golfíþróttina í framhaldsskóla læri á sama tíma færni sem getur bætt andlega, líkamlega og félagslega líðan þeirra á lífsleiðinni,“ segir Irena og bendir að lokum á margþættan ávinninginn að því að stunda golf – og badminton.

Exit mobile version