/

Deildu:

Auglýsing

Gríðarlegt úrval er af golfboltum á markaðnum í dag. Margir kylfingar eiga erfitt með að átta sig á því hvaða bolta þeir eigi að nota.

Það eru nokkrar þumalputtareglur í þessum bransa og hér er stiklað á stóru um þær. 

Fyrir þá sem eru með háa forgjöf skiptir val á bolta ekki öllu máli. Ef fólki líkar við einhverja tegund ætti það bara að halda áfram að nota þann bolta.

Eftir því sem forgjöfin lækkar og kylfingurinn verður betri fer boltavalið að skipta verulegu máli. 

Sumir boltar eru hannaðir til þess að fara eins langt og hægt er. Aðrir boltar eru hannaðir með það í huga að gefa góða svörun eða tilfinningu í kylfuhausinn þegar höggið ríður af.  Sumir boltar eru hannaðir til þess að það sé auðvelt að fá baksnúning og boltinn stöðvast því fyrr á flötinni. Allir þessi þættir skipta máli við val á hentugum bolta. 

Eitt af því sem gott er að vita er hvernig boltinn er samsettur.

Algengasta tegundin er úr tveimur lögum, þar sem innri kjarni er húðaður með ytra lagi. Slíkir boltar eru hannaðir til þess að fljúga langt.

Helsti munurinn á golfboltum sem eru ódýrir og þeim sem eru dýrari er efnið sem notað er í ysta lagið á boltunum. 

Ódýrari boltarnir eru húðaðir með surlynplastefni sem hefur þá kosti að endast vel og þola mikið hnjask. Slíkir golfboltar eru endingargóðir.  

Golfboltar af dýrari gerðinni eru í það minnsta með þrefalt ytra lag sem er gert úr mjúku urethane gúmmíefni. Boltar af slíkri gerð grípa mun betur í grófirnar á kylfuhausnum. Ný og skörp fleygjárn eiga það til að rífa upp efnið þegar slegið er með slíkum bolta. Endingin er því ekki eins góð miðað við tveggja laga boltann. Það eru til gerðir af boltum sem eru með fjórfalt og jafnvel fimmfalt ytra lag af urethane gúmmíefni. 

Ef þú finnur bolta, prófaðu að bíta létt í ysta lagið. Ef það gefur aðeins eftir er líklegt að boltinn sé með þrefalt lag eða meira. Ef það gefur ekkert eftir er líklegt að boltinn sé tveggja laga. 

Þumalputtareglan gæti verið þessi: Eftir því sem sveifluhraðinn er meiri því fleiri ytri lög vilja kylfingar hafa á golfboltanum. 

Golfboltar hafa einnig mismunandi eiginleika varðandi boltaflug. 

Boltar með surlynplastefni (ódýrir) fljúga hærra og með minni bakspuna. Boltar með urethane ytra lagi (dýrari) fljúga lægra og með meiri bakspuna. 

Eflaust eru margir sem vilja leika með golfboltum sem fá bakspuna á flötunum líkt og atvinnukylfingar ná að gera. Það ber að hafa það í huga að slíkir boltar ýkja einnig hliðarsnúninginn. Þeir kylfingar sem glíma við húkk eða slæs þurfa að vita að slíkir boltar gera slík högg enn verri þegar upp er staðið. 

Hvað segir sérfræðingurinn?

Golfsérfræðingar sem Golf á Íslandi ræddi við mæla með eftirfarandi reglu:

Háforgjafarkylfingar ættu að nota harðari boltann sem er tveggja laga úr surlynplastefni. Slíkir boltar draga úr snúningi og boltinn fer þar af leiðandi oftar beint.
Þeir sem eru með lága forgjöf ættu að velja mýkri bolta sem er með mörgum ytri lögum. Þeir gefa betri svörun í höggið og það er betra að stjórna boltafluginu með slíkum boltum. 

Kvennaboltar henta vel á Íslandi

Best er að prófa sig áfram og ekki hika við að prófa ýmsar gerðir. Boltar sem eru sérstaklega hannaðir fyrir konur eru einnig ákjósanlegir fyrir karlkylfinga. Slíkir boltar henta vel t.d. á Íslandi þar sem hitastigið er ekki hátt og hægt er að ná mjög löngum höggum í slíkum aðstæðum með kvennaboltum. 


Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ