/

Deildu:

Auglýsing

„Það er hægt að vera geðveikur í golfi,“ segir Sverrir Þorleifsson

Sverrir Þorleifsson er einn virkasti félagsmaður GM og er kunnuglegt andlit fyrir mörgum. Sverrir hefur óvenjulega sögu að segja þegar kemur að golfferlinum hans, en hann gekk í GM árið 2013.

„Ég á við andleg vandamál að stríða og golfið bjargaði algjörlega því sem bjargað varð á þessum tíma og hefur einfaldlega verið mér lífgjöf þar sem ég upplifi auðvitað hæðir og lægðir í lífinu eins og allir aðrir.“

Sverrir flutti í Vesturbæinn frá Dalvík fyrir fimm árum og býr þar með unnustu sinni, Ásu Björgu, og kettinum Póló.

„Ég byrjaði í golfi 3. júní 2007, ég mun alltaf muna eftir því. Mágur minn dró mig með sér í golf en hann var búinn að fara á námskeið og bjóða mér nokkrum sinnum með. Mér fannst golf alveg glatað en ég vildi svo sem ekki gera neitt nema spila með hljómsveitinni minni um helgar. Þess á milli var ég heima nánast bara að horfa á vegginn. Þennan dag kom hann til mín og tilkynnti mér að ég væri að fara með honum í golf við litla ánægju mína, en ég sagðist geta farið með honum þótt ég ætlaði alls ekki að vera með.

Hann átti gamalt sett frá frænda sínum sem hann lánaði mér svo við fórum upp á golfvöll í ekkert sérstöku veðri. Ég sagðist geta komið með en svo endaði ég með því að prófa og mér tókst að höggva mig í gegnum þessar níu holur. Þegar ég var búinn að spila leið mér eins og ég hefði fengið heilun. Ég væri sennilega ekki hér í dag ef það væri ekki fyrir mág minn. Það að hann dró mig með sér í golfið var mér lífsbjörg.“

Keypti golfsett samdægurs

„Ég fór heim og reyndi að átta mig á hvað hefði gerst, leitaði að golfbúð á netinu og hringdi í fyrstu sem ég sá, Hole in One. Strákarnir þar hjálpuðu mér að finna golfsett og kerru, golfkúlur og það sem ég kallaði „prikin sem maður slær af“ sem ég komst síðar að að hétu tí.

Næst hringdi ég í Ásu, sem var stödd erlendis, og sagði henni að ég hefði farið í golf. Hún var vægast sagt hissa en ég spurði hana hvort ég mætti kaupa mér golfsett sem henni fannst frábært. Eins gott, þar sem ég var búinn að kaupa það,“ segir Sverrir hlæjandi.

„Daginn eftir kom allt dótið með flutningabíl norður og ég var eins og lítill krakki að taka upp pakka á jólunum. Ég var að vísu heillengi að finna út úr hvernig þetta virkaði, skrúfa saman kerruna og vesenast.

Næst fór ég út á golfvöll og var bara þar. Ég fór í kennslu og hefði aldrei trúað því hvað mér var tekið vel. Maður kynntist fólki allt öðruvísi heldur en maður þekkti það áður. Fyrstu þrjár vikurnar passaði ég mig að fara út á golfvöll þegar ég vissi að enginn annar yrði þar. „Ég er svo lélegur, ég slæ svo mörg högg, ég er bara fyrir og það nennir enginn að spila með mér,“ hugsaði ég með mér eins og margir byrjendur tengja eflaust við. Það er samt sem áður mesta bull í heimi.

Þegar ég hélt að ég væri að hitta á réttan tíma, seinnipart á laugardegi, renndi bíll í hlað þegar ég var að tía upp á 1. teig. Þá steig pabbi skólasystur minnar út og heilsaði mér. Ég bauð honum að fara á undan mér en hann tók það ekki í mál og hélt nú aldeilis að við skyldum spila saman þrátt fyrir að ég reyndi ítrekað að tala hann ofan af því.

Þannig kynntist ég því að það skiptir engu máli hvað þú getur í golfi, það skiptir bara máli að hafa gaman á meðan. Það er númer 1, 2 og 3. Eftir þetta þorði ég frekar að spila með öðrum en það er náttúrulega miklu skemmtilegra. Ég spilaði mikið með Elmari mági mínum þangað til ég varð betri en hann, því hann er svo mikill keppnismaður.

Í framhaldinu fór ég að þora að mæta í mót og á karlakvöld og taka meira þátt. Í lok júní kom maður upp að mér og spurði hvort ég vildi ekki vera með í Meistaramótinu sem ég hafði auðvitað ekki hugmynd um hvað væri. Hann útskýrði lauslega fyrir mér að þetta væri golfmót sem væri haldið á hverju ári svo ég ákvað að slá til. Þegar ég mætti spilaði ég með tveimur konum en ég kláraði alla boltana á fyrri níu, svona 15-20 stykki. Ég ætlaði bara að labba út í bíl og fara heim þegar þær sögðu mér að það væri annar hringur, sem sagt 18 holur, og svo næstu þrjá daga líka. Við vorum þrír í flokknum og einn hætti svo ég lenti í öðru sæti.“

Sverrir spilar á trommur við ýmis tilefni og segir það vera líkt golfinu að vissu leyti.

„Mér finnst mjög mikið líkt með því að sveifla golfkylfu og spila á trommur. Bæði er einhvers konar grip og sveifla, tímasetningar, tækni og hreyfingar. Það hentar mér mjög vel.

Við fluttum í bæinn haustið 2012 af því að Ása fékk vinnu. Ég seldi íbúðina mína á Dalvík svo ég gæti ekki flúið aftur norður ef eitthvað bjátaði á. Fyrsti veturinn í bænum var mjög erfiður fyrir mig andlega en þegar það byrjaði að vora fór ég að pæla hvort ég gæti ekki gengið í golfklúbb á höfuðborgarsvæðinu.“

Geðveikur í golfi

„Ég hitti Þorstein Hallgrímsson og hann hvatti mig að koma í GM, það væri akkúrat klúbburinn fyrir mig, vinalegur og hálfgerður „úti á landi“ klúbbur á þeim tíma. Ég tók hann á orðinu og allir tóku ótrúlega vel á móti mér. Ég fékk vinnu í framhaldinu hjá klúbbnum en ég elska þessa íþrótt og allt í kringum hana og ég vil halda að ég hafi staðið mig ágætlega í því sem ég gat gert. Þetta skiptir mig miklu máli og ég vil vera boðinn og búinn að hjálpa til hjá klúbbnum þegar það þarf. Ef ég hef tíma til þess að hjálpa til þá geri ég það hiklaust.

Móttökurnar sem ég fékk hér voru ótrúlegar. Ég er kvíðinn, félagsfælinn og feiminn og þarf alltaf að hafa allt á hreinu fyrirfram. Það er hægt að vera geðveikur í golfi. Það var stórt skref fyrir mig að koma í GM þar sem ég þekkti engan nema Þorstein sem sagði mér að hér væri góður andi og þetta væri góður klúbbur og ég treysti því. Þeirri ákvörðun sé ég ekki eftir og ég gæti ekki hugsað mér að fara í annan klúbb í Reykjavík. Fólk spyr mig reglulega hvort mér finnist ekki langt að keyra úr Vesturbænum í Mosó en það eru tvær mínútur héðan og á Korpuna svo það skiptir nákvæmlega engu máli.

Í kjölfar þess að koma í GM kynntist ég ótrúlega mörgu fólki og mínir bestu vinir á höfuðborgarsvæðinu er fólkið sem ég er með í golfi, það er ekki spurning.“

Sverrir hefur komið upp þeirri skemmtilegu hefð að taka „golfie” (golf-selfie) af sér og meðspilurum í hvert skipti sem hann spilar. Því er hann kominn með skemmtilegt safn af skemmtilegum hringjum með góðum vinum í misjöfnu veðri.

„Ef einhver er að byrja í golfi og er óöruggur þá má sá hinn sami endilega hafa samband við mig, það eru allir velkomnir í minn ráshóp!“

Kristín María Þorsteinsdóttir skrifar:
Viðtalið við Sverri var fyrst birt í tímariti
Golfklúbbs Mosfellsbæjar sem kom út í júní.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ