Golfsamband Íslands

Golfklúbburinn Dalbúi fær styrk úr styrktarsjóði GSÍ


Stjórn Golfsambands Íslands tók fyrir umsókn Golfklúbbsins Dalbúa um styrk úr styrktarsjóði GSÍ á stjórnarfundi þann 10. maí s.l.

Styrktarsjóði Golfsambands Íslands er ætlað að styrkja íslenska golfklúbba við rekstur golfvalla sinna eða mannvirkja, sbr. 16. grein laga GSÍ.

Eftir umræður og teknu tilliti til stærðar sjóðsins sem stendur var niðurstaðan að styrkur að upphæð 300.000 kr var samþykktur af stjórn GSÍ til Golfklúbbsins Dalbúa.

Í reglugerð sjóðsins kemur fram að fyrst og fremst er horft til þess að styrkja golfklúbba sem þurfa að bregðast við óvæntum áföllum í rekstri golfvalla sinna eða annarra mannvirkja. Einnig er sjóðnum heimilt að styrkja golfklúbba við að koma sér upp lágmarksbúnaði við rekstur golfvalla.

Gert er ráð fyrir því að umsækjendur leggi sjálfir fram mótframlag í viðkomandi verkefni gegn þeim styrk sem samþykktur verður. Skilyrði fyrir greiðslu er að greinargerð sé skilað til GSÍ þar sem framvindu verkefnisins er skilmerkilega lýst.

Exit mobile version