Golfklúbburinn Esja er nýr golfklúbbur sem er nú formlegur aðili að Golfsambandi Íslands. Umsókn GE um inngöngu var samþykkt á stjórnarfundi GSÍ. GE er skammstöfun klúbbsins. Alls eru því 63 golfklúbbar innan raða GSÍ.
Í stjórn Golfklúbbsins Esju eru Magnús Lárusson, Páll Ingólfsson og Birgir Guðjónsson. Á stofnfundinn mættu Páll Ingólfsson, Magnús Lárusson., Björn Þór Hilmarsson, Guðjón Karl Þórisson, Guðmundur Ingvi Einarsson, Tómas Salmon, Birgir Guðjónsson, Guðlaugur Rafnsson, Helgi Anton Eiríksson og Hermann Geir Þórsson.
Þessi hópur kylfinga hefur á undanförnum árum verið í röðum Golfklúbbsins Jökuls á Snæfellsnesi, GJÓ, og leikið m.a. í 1. deild undir merkjum GJÓ á Íslandsmóti golfklúbba.
Golfklúbburinn Esja er með samstarfssamning við Golfklúbb Brautarholts, og verður Brautarholtsvöllur heimavöllur GE.
Magnús Lárusson, nýkjörinn formaður GE, mætti á golfþingið og kynnti nýjasta golfklúbbinn fyrir þinginu. Magnús sagði að markmið með stofnun klúbbsins væri fyrst og fremst til þess að efla golfíþróttina á Íslandi.
Magnús sagði einnig að að keppnis – og afreksgolf yrði rauði þráðurinn í starfi klúbbsins. Meðalforgjöf klúbbfélaga er um 3,4 og er ætlunin að koma Golfklúbbi Esju í fremstu röð á Íslandsmóti golfklúbba áður en langt um líður.