Site icon Golfsamband Íslands

Golfkúbbur Öndverðarness 40 ára

Öndverðarnesvöllur.

Aðalfundur Golfklúbbs Öndverðarness var haldinn 18. desember.  Fundurinn var vel sóttur en tæplega 70 félagar mættu á aðalfundinn. Forseti GSÍ Haukur Örn Birgisson mætti á fundinn.  Óskaði hann klúbbnum til hamingju með 40 ára afmælið og sæmdi nokkra félaga heiðursmerki GSÍ fyrir áratuga sjálfboðastarf og vel unnin störf í þágu klúbbsins og golfhreyfingarinnar.  Silfurmerki GSÍ hlutu Guðmundur E. Hallsteinsson og Knútur Kristinsson. Gullmerki GSÍ hlutu Hafdís Helgadóttir, Einar Einarsson og Örn Karlsson.

Guðmundur E. Hallsteinsson, formaður klúbbsins s.l. 7 ár og varaformaður áður í 3 ár, gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.  Klúbburinn hefur dafnað og vaxið undir hans stjórn og þökkuðu félagar honum með lófaklappi og húrrahrópum.  Ennfremur gáfu Knútur Kristinsson og Ragnar Guðmundsson ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.

Nýja stjórn skipa.  Aðalsteinn Steinþórsson formaður, Guðjón Snæbjörnsson, Guðlaug Þorgeirsdóttir, Hannes Björnsson og Knútur Hauksson.  Í varastjórn eru Þórhalla Arnardóttir og Þórir Baldvin Björgvinsson.

Veðrið síðasta sumar setti strik í reikninga klúbbsins og varð tekjusamdráttur milli ára, bæði af mótum og vallargjöldum.  Þrátt fyrir það tókst fráfarandi stjórn að skila 1 milljón króna rekstrarafgangi.

Exit mobile version