Site icon Golfsamband Íslands

Golfleikjaskóli Önnu Díu kveður eftir 15 ára farsælt starf

„Ég er bæði stolt og sátt með mitt,” segir Anna Día íþróttafræðingur sem kennt hefur nokkur hundruð kylfingum á öllum aldri grunnatriðin í golfíþróttinni í gegnum Golfleikjaskólann sem hún hefur starfrækt undanfarin 15 ár. Nú er komið að kaflaskilum hjá Önnu Díu sem ætlar að beina kröftum sínum að sundkennslu leikskólabarna og þjálfun eldri borgara í vatnsleikfimi.

Anna Día segir að það sem standi upp úr á þessum 15 árum sé sá fjöldi kvenna sem hefur byrjað í golfíþróttinni eftir að hafa farið í gegnum byrjendakennslu hjá Golfleikjaskólanum. Frá upphafi var það markmið Golfleikjaskólans að sérhæfa sig í byrjendakennslu fyrir konur. Síðan bættust karlar og börn í hópinn. Golfleikjaskólinn bauð einnig uppá fjölskyldunámskeið þar sem foreldrar komu með börnin sín og afar og ömmur gátu komið með barnabörnin og byggt upp sameiginlegt áhugamál. U.S Kids golfskólinn fyrir börn var starfræktur í nokkur sumur á Setbergsvelli og tókst sérlega vel með þau námskeið. Það er gleðilegt að sjá að margir af nemendum Golfleikjaskólans eru virkir þátttakendur í golfklúbbum, á golfmótum og þátttakendur í golfferðum erlendis.

Auk golfkennslunnar þýddi Anna Día þrjár golfbækur og gaf út fyrir þá sem voru að taka sín fyrstu skref í golfíþróttinni. Bækurnar vöktu mikla athygli seldust upp og voru prentaðar aftur.

„Berskjölduð á fyrsta teig” – sló svo sannarlega í gegn árið 2006 þegar hún kom út. Í kjölfarið kom myndskreytt golfreglubók þar sem helstu reglur eru teknar fyrir bæði í myndum og með auðveldum útskýringum. Síðast en ekki síst var þriðja bókin og jafnvel sú besta, ,,Viðbúinn, Tilbúinn, Golf” sem var endurbætt útgáfa af „Berskjölduð á fyrsta teig” sem ætluð er nýliðum í golfi. Í þessum bókum er fjallað um golfumhverfið í heild sinni fyrir utan það hvernig eigi að hitta sjálfan golfboltann.

Anna Día segir það hafi ekki verið auðvelt að setja Golfleikjaskólann á laggirnar.

Ég var ekki afrekskylfingur eða með lága forgjöf, heldur íþróttafræðingur að mennt með réttindi til þess að kenna hvaða íþrótt sem er.
Það voru tveir aðilar sem stóðu með mér frá byrjun og hvöttu mig hvað mest áfram og vil ég þakka þeim sérstaklega fyrir stuðninginn. Það eru þeir Júlíus Rafnsson f.v. foseti GSÍ og Jón Karlsson íþróttakennari og PGA golfkennari. Án þeirri hefði líftími Golfleikjaskólans ekki orðið 15 ár.
Þeir höfðu báðir mikla trú á því sem ég var að gera og hvöttu mig til dáða. Takk fyrir það strákar.

Aðspurð segir Anna Día að hennar upplifun sem byrjandi í golfíþróttinni hafi hvatt hana til þess byrja með Golfleikjaskólann.

„Ég taldi að það væri hægt að nálgast byrjendakennsluna með öðrum og skemmtilegri hætti en ég upplifði. Sérstaklega fyrir konur sem eru enn í miklum minnihluta á golfvöllum landsins. Styrkur úr íþróttasjóði kvenna sem kenndur er við 17. júní varð til þess Anna Día gat keypt útbúnað til þess að koma konum af stað í þessari frábæru íþrótt – og Golfleikjaskólinn varð frá upphafi ,,Frumkvöðull í að hvetja konur til golfiðkunar,, . Það er það sem stendur upp úr eftir þessi 15 ára samhliða ógleymanlegum kvenna golfferðum á „Ladies Golf Week” í Himmerland í Danmörku,” sagði Anna Día í samtali við golf.is.

Exit mobile version