Fréttaskot frá dómaranefnd GSÍ þar sem fjallað er um breytingarnar á golfreglunum.
Í þremur tilvikum kanntu að kjósa að taka aftur-á-línu lausn, þ.e. þegar þú tekur lausn úr vítasvæði, þegar þú dæmir bolta þinn ósláanlegan eða þegar þú tekur vítalausn úr glompu vegna óeðlilegra vallaraðstæðna.
Ef þú tekur t.d. aftur-á-línu lausn úr gulu vítasvæði er miðað við línu frá holunni í gegnum staðinn þar sem boltinn fór síðast inn í gula vítasvæðið.
Í fyrri reglum áttirðu að láta bolta falla á þessa línu, aftan við vítasvæðið. Nú velurðu þér viðmiðunarstað á línunni, t.d. með því að stinga niður tíi. Þá hefurðu lausnarsvæði sem er ein kylfulengd frá viðmiðunarstaðnum (þó ekki nær holunni) og lætur bolta falla innan þessa lausnarsvæðis. Eins og í öðrum tilfellum þegar þú lætur bolta falla þarf boltinn að stöðvast innan lausnarsvæðisins. Ef boltinn rúllar út fyrir lausnarsvæðið þarftu að láta boltann falla aftur. Rúlli hann aftur út fyrir lausnarsvæðið áttu að leggja boltann þar sem hann lenti á jörðinni í seinni tilrauninni.
Þessi breyting er hluti almennra breytinga sem felast í því að þegar þú lætur bolta falla læturðu boltann alltaf falla innan skilgreinds lausnarsvæðis.
Sjá reglu 17.1d og 14.3c