/

Deildu:

Brynjar Eldon Geirsson og Hafrún Kristjánsdóttir. Mynd/HR
Auglýsing

Golfsamband Íslands (GSÍ) og íþróttafræðisvið Háskólans í Reykjavík munu kosta meistaraverkefni í íþróttavísindum og þjálfun við HR þar sem fylgst verður með líkamlegri getu, hreyfifærni og sálfræðilegum þáttum afrekskylfinga næstu tvö árin. Forsvarsmenn Golfsambandsins (GSÍ) og íþróttafræðisviðs HR skrifuðu nýlega undir samning þar að lútandi.

Markmiðið með samstarfinu er að efla þjálfun bestu kylfinga landsins og byggja hana á traustum gögnum. Mælingar verða gerðar tvisvar til fjórum sinnum á ári og afrekskylfingar og þjálfarar munu fá ráðgjöf frá sérfræðingum HR út frá niðurstöðum þeirra. Verkefnið verður unnið í nánu samstarfi við afreksstjóra GSÍ.

Gott tækifæri fyrir meistaranema

Hafrún Kristjánsdóttir, sviðsstjóri íþróttasviðs HR, segir að samkomulagið falli vel að stefnu sviðsins um áframhaldandi uppbyggingu á öflugum rannsóknum og meistaranámi í íþróttafræði innan háskólans í samstarfi við hin ýmsu sérsambönd. „Nemendur í meistaranámi eiga þess nú kost að vinna að styrktum rannsóknaverkefnum sem tengjast hinum ýmsu íþróttagreinum. Þetta verkefni og fleiri svipuð verða auglýst til umsóknar innan tíðar og það verður spennandi að sjá hvernig niðurstöðurnar munu nýtast við afreksþjálfun.“

Rannsóknir mikilvægar

Brynjar Eldon Geirsson, framkvæmdastjóri Golfsambandsins segist mjög ánægður að ganga til þessa samstarfs við HR og það sé mjög mikils virði að fá samanburðarhæfar mælingar yfir tíma, unnar af fagfólki. „Niðurstöður þessara mælinga mun gera þjálfurum kleift að fylgjast betur með líkamlegu ástandi kylfinga, sem er m.a. mikilvægt til að geta komið í veg fyrir álagsmeiðsli. En þær eru líka mikilvægar fyrir aukna áherslu okkar á hugarþjálfun kylfinga, sem er ekki síður mikilvæg en líkamsþjálfunin, til að ná góðum árangri á golfvellinum.“

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ