Site icon Golfsamband Íslands

GSÍ semur við Golfbox – stefnt að opnun á nýju kerfi árið 2020

Tölvunefnd Golfsambands Íslands lagði nýverið fram tillögu þess efnis að GSÍ taki í notkun hugbúnaðarkerfið Golfbox.

Tölvunefndin komst að þessari niðurstöðu eftir ítarlega skoðun og greiningu en sú vinna hefur farið fram á undanförnum árum.

Golfbox hefur frá árinu 2003 rekið og þróað hugbúnaðarkerfi fyrir golfklúbba, golfsambönd og mótshaldara. Kerfið hefur verið í notkun í tugum landa með góðum árangri og er leiðandi lausn á markaði  Kerfið býr yfir fullkomnu mótakerfi, nýju forgjafarkerfi (WHS), rástímakerfi og ýmsum öðrum möguleikum sem styðja við starfsemi golfklúbba. 

Stjórn GSÍ fjallaði um málið á síðasta stjórnarfundi sínum þann 28.mars 2019. 

Á þeim fundi var samningur við Golfbox til fimm ára undirritaður með fyrirvara um samþykki auka-Golfþings, sem haldið verður 11.maí. Golfhreyfingin mun eiga lokaorðið og ákveða hvaða leið verður fyrir valinu.

„Upplýsingatæknimálin hafa verið ofarlega í umræðunni innan golfhreyfingarinnar árum saman. Við erum stolt af því að hafa í samstarfi við Idega þróað okkar eigið kerfi síðustu tuttugu árin. Við vorum langt á undan öðrum golfsamböndum í þessari þróun og náðum að þjóna okkar golfklúbbum vel. Nú er hinsvegar komið að ákveðnum tímamótum.

Golfsamband Íslands er ekki hugbúnaðarfyrirtæki og það er mat okkar að við munum aldrei getað elt þær tæknikröfur sem klúbbar og kylfingar munu gera í framtíðinni. Við teljum því tímabært að kaupa þessa þjónustu af Golfbox, sem starfar á alþjóðlegum markaði og þjónustar margar milljónir kylfinga.

Idega á mikið hrós skilið fyrir samstarfið undanfarna áratugi og ég vona að kylfingar okkar kunni að meta það frábæra starf sem unnið hefur verið til þessa,“ segir Haukur Örn Birgisson forseti GSÍ.

Gert er ráð fyrir að Golfbox verði komið í gagnið og aðgengilegt fyrir kylfinga á golf.is í byrjun árs 2020. 

Exit mobile version