Site icon Golfsamband Íslands

Guðfinna Sigurþórsdóttir heiðursfélagi GS

Guðfinna Sigurþórsdóttir, einn af stofnendum Golfklúbbs Suðurnesja, var gerð að heiðursfélaga á aðalfundi félagsins í síðustu viku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá GS.

Guðfinna hefur verið félagi í klúbbnum óslitið frá stofnun hans og verið virk í starfi klúbbsins. Hún er fyrsti Íslandsmeistarinn í kvennaflokki (1967 á Hvaleyrarvelli) og barðist fyrir því á árum áður að konur fengju sama rétt til keppnis og karlar. Hún krafðist þess t.d. að konur fengju að spila jafn margar holur á Íslandsmótum og karlar eða 72 holur – en ekki helmingi færri eða 36 holur, sem hún upplifði sem mikið óréttlæti.

Tilfinning hennar á þessum tíma var að golfvellir væru ekki fyrir konur. Þegar hún var að stíga sín fyrstu skref í íþróttinni var ekkert kvennastarf í golfklúbbum landsins eins og við þekkjum í dag. Það var ekki einu sinni gert ráð fyrir þeim í meistaramóti klúbbsins á þessum árum.

Í dag er blómstrandi kvennastarf í GS og er það ekki síst fyrir tilstilli brautryðjandastarfi Guðfinnu og hennar samferðakvenna. Það ber að þakka Guðfinnu fyrir hennar framlag og framgöngu fyrir konur í golfi og gaman að sjá hverju mikið kvenkylfingum hefur fjölgað undanfarin ár.

Guðfinna notar ennþá hvert tækifæri til að spila golf og er hvergi nærri hætt að bera hag klúbbsins fyrir brjósti. Golfklúbbur Suðurnesja kynnir með stolti Guðfinnu sem nýjan heiðursfélaga.

Exit mobile version