Fjórir íslenskir kylfingar voru á meðal keppenda á Mediter Real Estate Masters – sem fram fór á PGA Catalunya Resort við Barcelona á Spáni.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr GR gerði sér lítið fyrir og sigraði. Mótið er hluti af Nordic Tour atvinnumótaröðinni og er þetta fyrsti sigur hans á mótaröðinni sem er í þriðja styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu.
Eftir því sem best er vitað hefur aðeins Axel Bóasson úr GK náð að vinna mót á þessari mótaröð. Axel landaði tveimur sigrum árið 2017 og stóð uppi sem stigameistari í lok keppnistímabilsins.
Það er að miklu að keppa á þessari mótaröð. Fimm stigahæstu kylfingarnir í lok keppnistímabilsins fá keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni (Challenge Tour) á næsta tímabili.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson (GR) sigraði á -12 samtals (64-70-66).
Skor hans á mótinu má sjá hér fyrir neðan.
Haraldur Franklín Magnús úr GR endaði í 17. sæti á -3 samtals (71-70-68).
Andri Þór Björnsson úr GR endaði í 40. sæti á +2 samtals, (67-76-71).
Axel Bóasson úr Keili er úr leik á +4 samtals (74-72)