Fjórir íslenskir kylfingar verða á meðal þátttakenda á Indoor Golf Group Challenge mótinu sem fram fer dagana 22. – 25. agúst.
Mótið er hluti af Challenge Tour atvinnumótaröðinni sem er í næst efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu í karlaflokki.
Keppt er á Landeryds golfsvæðinu í Svíþjóð og er leikið á Vesterby Links vellinum.
Íslensku kylfingarnir eru Guðmundur Ágúst Kristjánsson, Haraldur Franklín Magnús, Axel Bóasson og Sigurður Arnar Garðarsson.
Guðmundur Ágúst, Haraldur Franklín og Axel eru allir með keppnisrétt á Challenge Tour mótaröðinni á þessu tímabili.
Sigurður Arnar vann sér inn keppnisrétt á þessu móti með frábærum árangri á Next Tour innigolfmótaröðinni í vetur en þar er leikið í Trackman innigolfhermum.
Guðmundur Ágúst, Haraldur Franklín og Axel voru á meðal keppenda á Vierumäki Finnish Challenge mótinu sem fram fer á Vierumäki golfsvæðinu í síðustu viku. Þar endaði Guðmundur Ágúst í 42. sæti en Haraldur Franklín og Axel komust ekki í gegnum niðurskurðinn að loknum öðrum keppnisdegi.
Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit:
Haraldur Franklín er að leika á sínu fjórtánda móti á þessu tímabili. Guðmundur Ágúst hefur leikið á ellefu mótum og Axel á tíu mótum.
Í lok tímabilsins komast 45 efstu á lokamótið þar sem að keppt er um 20 sæti á DP World Tour, sem er í efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu í karlaflokki.
Smelltu hér fyrir stigalistann í heild sinni:
Alls eru 29 mót á Challenge Tour á þessu tímabili og er mótið í Svíþjóð það nítjánda á þessu tímabili.