Guðmundur Ágúst Kristjánsson, atvinnukylfingur úr GKG, er jafn í öðru sæti þegar keppni er hálfnuð á Hero Indian Open mótinu sem fram fer í Nýju Delí dagana 23.-26. febrúar.
Mótið er hluti af DP World Tour atvinnumótaröðinni, sem er í efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu.
Guðmundur Ágúst var í fjórða sæti eftir fyrsta keppnisdaginn þar sem hann lék á 68 höggum eða 4 höggum undir pari vallar. Hann lék á einu höggi undir pari á öðrum keppnisdegi og fer út í síðasta ráshóp á þriðja keppnisdegi. Mikko Korhonen frá Finnlandi og Paul Yannik frá Þýskalandi eru með Guðmundi í ráshóp en Yannik er með fimm högga forskot á þá félaga. Alls eru fjórir keppendur á 5 höggum undir pari samtals.
Nánari upplýsingar um mótið á Indlandi, rástímar, staða og úrslit – smelltu hér:
Sýnt er frá DP World Tour á sjónvarpsstöðinni Viaplay.
Guðmundur Ágúst hefur leik kl. 6:05 í fyrramálið, laugardaginn 25. febrúar. Útsending hefst kl. 7:00 að íslenskum tíma.
Besti árangur hjá íslenskum kylfingi á DP World Tour er 11. sætið. Birgir Leifur Hafþórsson, GKG, varð í 11. sæti á Telecom Italia Open sem fram fór í maí árið 2007.


Guðmundur Ágúst hefur á undanförnum tveimur vikum þokað sér upp stigalistann á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu í karlaflokki, DP World Tour. Hann endaði í 51. sæti á á Thailand Classic mótinu sem lauk s.l. sunnudag. Í vikunni þar á undan endaði hann í 49. sæti.
Á þessu tímabili hefur Guðmundur Ágúst leikið á sjö mótum á DP World Tour. Hann hefur komist í gegnum niðurskurðinn á tveimur síðustu mótum. Hann fór upp um 23 sæti á stigalistanum eftir mótið í Taílandiog er í sæti nr. 182. Alls eru 244 keppendur á stigalistanum og var Guðmundur Ágúst í sæti nr. 205 í síðustu viku.
Guðmundur Ágúst fékk rúmlega 7.100 Evrur í verðlaunafé í Taílandi eða rétt rúmlega 1.150 þúsund kr. Á tímabilinu hefur Guðmundur Ágúst fengið tæplega 2,4 milljónir kr. í verðlaunafé.

Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit á mótinu í Taílandi.
Guðmundur Ágúst lék hringina fjóra í Taílandi 70-70-72-70. Hann fékk alls alls 18 fugla (-1), 10 skolla (+1) og einn skramba (+2)

Guðmundur Ágúst náði sínum besta árangri á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu í karlaflokki í þar síðustu viku þegar hann endaði í 49. sæti í Singapúr Lokahringurinn var eftirminnilegur hjá Guðmundi Ágústi þar sem hann sló draumahöggið á 11. holu af um 180 metra færi – og fór holu í höggi.
Hann lék hringina fjóra á 6 höggum undir pari vallar eða 282 höggum. Hann fékk alls 19 fugla á hringjunum fjórum og einn örn þegar hann fór holu í höggi á lokahringnum. Hann endaði í 49. sæti og fór upp um 17 sæti á lokahringnum.
Guðmundur Ágúst fékk rúmlega 7800 Evrur í verðlaunafé eða rúmlega 1,2 milljónir kr. Guðmundur fékk einnig sín fyrstu stig á stigalista DP World Tour er hann í sæti nr. 205 af alls 239 keppendum sem hafa náð stigum á tímabilinu.
Hér má sjá skorkortið hjá Guðmundi Ágústi frá því í Singapúr.

Guðmundur Ágúst tryggði sér keppnisrétt á DP World Tour s.l. haust á lokaúrtökumótinu sem fram fór á Spáni. Hann lék á þremur mótum í Suður-Afríku og einu á Máritíus í lok síðasta árs. Hann lék í í Singapúr í síðustu viku og mótið í Taílandi er það sjöunda hjá GKG-ingnum á keppnistímabilinu.
Gudmundur Kristjansson makes a hole-in-one at the 199 yard 11th hole 👏#SingaporeClassic pic.twitter.com/3WjMKFBqlx
— DP World Tour (@DPWorldTour) February 12, 2023
Guðmundur Ágúst er sjöundi keppandinn sem slær draumahöggið á DP World Tour á þessu tímabili.
